Einar Skúlason hefur lengi haft brennandi áhuga á gönguferðum og fjallgöngum. Fyrir nokkrum árum stofnaði hann fyrirtækið Wapp – Walking app, sem gefur út og heldur utan um samnefnt snjallforrit. Eins og nafnið gefur til kynna er forritið eins konar ferðafélagi og leiðsögumaður: auk þess að vísa viðkomandi veginn býr það yfir fróðleik um umhverfið og sögum sem tengjast því.

Þrálát rigning kveikjan að hugmyndinni
Einar var búinn að skrifa tvær bækur um gönguleiðir og var að byrja á þeirri þriðju þegar hann fékk hugmyndina. „Ég man að ég var einmitt í Reykholti í Borgarfirði að skrifa, í gamla skólanum. Ég ætlaði að nota tækifærið og ganga einhverjar leiðir þar, en þá var búið að rigna allan tímann. Ég hugsaði með mér að þetta væri vonlaust, að vera að skrifa einhverjar göngubækur, fólk getur ekkert tekið þær með sér þegar það er að ganga.“

Einar fékk þá hugmyndina um að fólk tæki leiðsagnirnar einfaldlega með sér í símanum í stað bókar. Hann komst hins vegar fljótt að því að ekkert snjallforrit sem hentaði hans þörfum var til á markaðnum. „Þá fór ég að spá í hvort ég gæti ekki bara skrifað inn í eitthvert app fyrir snjallsíma, þannig að fólk gæti tekið þetta með sér í símanum, en ég fann ekkert sem passaði þar sem ég gæti fengið einhverjar tekjur á móti. Svo ég endaði á því að láta bara búa til fyrir mig app. Í dag inniheldur það um 300 leiðir.“

Vissulega eru til forrit með leiðsögnum, meðal annars fyrir Ísland, en þau eru ekki skrifuð af fagaðilum og í þeim er engin gæðastjórnun. „Það eru til útlensk öpp sem sum virka á Íslandi, en það er ekki hægt að treysta leiðsögninni; þú veist ekkert hver setti hana inn. Þú veist ekki hvort leiðin er í lagi eða hvort þú megir í raun einu sinni vera þarna. Í Wappinu er hægt að treysta leiðunum, og það er ýmiss konar fróðleikur sem fylgir með. Ég skrifa leiðirnar bara eins og ég sé að skrifa bók.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .