Íslenski skipstjórinn Arngrímur Bryjjólfsson, sem var handtekinn í Namibíu í gær, var á veiðum á togara Samherja, Heinaste, þegar meint brot átti sér stað. Arngrímur sat í gæsluvarðhaldi sakaður um ólöglegar veiðar í landhelgi Namibíu, en hann hefur nú verið látinn laus gegn tryggingu.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, staðfestir þetta í viðtali í hádegisfréttum Rúv í dag.

„Ég er ekki í daglegum rekstri Samherja í Namibíu en að sjálfsögðu höfum við fylgst með máli Arngríms í dag. Þó ekki nema fyrir það að ég hef þekkt Arngrím mjög lengi. Hann er fínn vinur minn.

Málið er í vinnslu núna. Hann er ekki lengur í varðhaldi. Ég vona auðvitað að úr máli hans gagnvart yfirvöldum í Namibíu leysist sem allra fyrst.

Þetta eru ásakanir sem hann kannast ekki alveg við. En hann mun svara fyrir þær sjálfur þegar hann er laus frá Namibíu.“

Björgólfur segir togarann Heinaste vera einn af þremur togurum sem gerður hafi verið út af félögum í eigu Samherja í Namibíu. Skipið sé í söluferli en hafi verið við veiðar í Namibíu í nokkur ár.