Flugfélög vara nú við að þau neyðist til að fljúga hálftómum vélum til að halda í lendingarleyfi (e. landing slots) á flugvöllum vegna nýrra reglna í Bretlandi. Financial Times greinir frá.

Samgönguráðuneyti Bretlands tilkynnti í dag nýjar reglur sem taka gildi 27. mars þar sem flugfélög þurfa að láta frá sér lendingarleyfin ef þau eru ekki nýtt í að minnsta kosti 70% tilfella, en viðmiðið í dag er 50% nýtingarhlutfall. Reglurnar innihalda þó undanþágu ef lagðar eru á nýjar samkomutakmarkanir.

Í venjulegu árferði hefur hlutfallið miðast við 80% en fallið var frá reglunum í byrjun kórónuveirufaraldursins var fallið tímabundið frá reglunum til að koma í veg fyrir að flugfélög myndu fljúga tómum vélum til að halda í leyfin en slík flug hafa verið kölluð „draugaflug“.

„Nú þegar eftirspurn eftir flugi er að aukast, þá er við hæfi að við færum okkur aftur að fyrri reglum en jafnframt munum við veita iðnaðinum þann stuðning sem þarf á að halda,“ er haft eftir Robert Courts, flugmálaráðherra Bretlands.

Telja að breytingin leiði til óþarfa kolefnislosunar

Willie Walsh, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands flugfélaga (IATA), gagnrýndi ákvörðunina og sagði að með henni væri Bretland að leggja til hæsta lágmarkshlutfall í heimi. „Ríkisstjórnin er með þessu að neyða flugfélög til að vera með þúsundir flugferða með lágri sætanýtingu sem er heimskulegt hvað umhverfismál varða,“ segir Walsh.

Luis Gallego, forstjóri IAG, móðurfélags British Airways tók undir þessi sjónarmið og sagði að ákvörðunin muni leiða til óþarfa kolefnislosunar.

Forstjóri Gatwick fagnar ákvörðuninni

Breska samgönguráðuneytið sagði að 70% þröskuldurinn væri tilraun til að finna meðalveg á milli samkeppnisaðila á markaðanum. Mörg lággjaldaflugfélög vonast til að nýta núverandi ástand til að stækka við sig og ná til sín lendingarleyfum. Forstjóri Wizz Air UK sagði að breytingarnar væru skref í rétta átt.

Forstjóri Gatwick flugvallarins í London fagnaði einnig nýju reglunum. Gatwik, næst stærsti flugvöllur Bretlands hefur orðið fyrir barðinu á faraldrinum en mörg flugfélög kusu að halda starfseminni í faraldrinum gangandi á Heathrow vellinum en héldu þó í gömlu lendingarleyfin á Heathrow.

Töluverð umræða skapaðist um draugaflugin þegar greint var frá því fyrir skömmu að Lufthansa myndi fara í 18 þúsund ferðir með hálftómar vélar til að halda í lendingarleyfin sín. Til stendur að hækka lágmarks nýtingarhlutfallið úr 50% í 64% hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins. Margir hafa kallað eftir því að framkvæmdastjórn ESB bregðist við ástandinu.

Hins vegar hafa hvorki Icelandair eða Play þurft að fljúga tómum vélum til þess að halda í lendingarleyfi, samkvæmt svörum íslensku flugfélaganna við fyrirspurn Fréttablaðsins fyrr í mánuðinum.