Það verða reynslumiklir dómarar sem munu mynda Hæstarétt þann 15. janúar næstkomandi en þá fer fram málflutningur í máli Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, gegn Lögmannafélagi Íslands (LMFÍ). Allir sitjandi dómarar við réttinn hafa sagt sig frá málinu og mynda varadómarar því dóminn að þessu sinni.

Málið höfðaði Jón Steinar til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna en með úrskurðinum var Jóni gert að sæta áminningu vegna samskipta sinna við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Téður dómstjóri leitaði til LMFÍ og félagið sendi kvörtun til nefndarinnar. Í héraði var því hafnað að fella úrskurðinn úr gildi en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að félagið hefði ekki haft lagaheimild til að leggja kvörtunina fram. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi.

Sem kunnugt er var Jón Steinar dómari við Hæstarétt frá 2004 til 2012. Af sitjandi dómurum var Jón Steinar samtíða þremur og þá hefur hann staðið í málaferlum við tvo af þeim sem eftir standa. Þá hefur hann gagnrýnt réttinn harðlega í ræðu og riti frá því að hann lét af störfum.

Hæstaréttardómarinn fyrrverandi, hinn ríflega áttræði Haraldur Henrysson, mun vera forseti réttarins í málinu nú. Haraldur var skipaður í Hæstarétt í byrjun árs 1989 og sat þar allt til 2003. Áður hafði hann verið sakadómari við Sakadóm Reykjavíkur um fimmtán ára skeið og dæmdi meðal annars í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum.

Aðrir sem mynda dóminn nú eru Ásgeir Magnússon, dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands, og héraðsdómararnir fyrrverandi Eggert Óskarsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Eggert og Sigríður, það er Ingvarsdóttir, voru fyrir áramót settir dómarar við Landsrétt.

Áhugavert er að síðast þegar mál er varðar hæstaréttardómara fór fyrir Hæstarétt - það er þegar Kári Stefánsson stefndi nýskipuðum Karli Axelssyni vegna reiknings sem hann taldi úr hófi - voru sömu einstaklingar kallaðir inn. Það mál var í tíð eldri dómstólalaga og því aðeins þrír dómarar sem mynduðu dóm í málinu. Það voru áðurnefnd Ásgeir Magnússon, Eggert Óskarsson og Sigríður Ingvarsdóttir.