„Það hefur verið mikill vöxtur í félaginu frá því að það var stofnað, en við náðum að hreyfa okkur mjög hratt í upphafi og kaupa mikið af fasteignum á hagstæðum verðum sem við höfum verið að vinna mikið úr á síðustu árum,“ segir Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins, en félagið sem var stofnað árið 2009 er eitt fyrirmyndarfyrirtækja síðasta árs.

„Auðvitað hafa markaðsaðstæður verið okkur hagstæðar undanfarið með mikilli eftirspurn. Þegar nýtingarhlutfall okkar er eins og núna, komið í 96 til 97%, þá er ekkert hægt að komast hærra, því þá gætum við ekki boðið viðskiptavinum okkar möguleikann á að flytja sig á milli húsa, stækka við sig eða minnka. Varan er einfaldlega búin í hillunum þegar þú ert kominn í 95%. Það er kraftur í íslensku athafnalífi en sem dæmi um það sjáum við ekki merki þess að vanskil hjá okkur séu að aukast.“

Helgi nefnir sem dæmi mikinn árangur félagsins í útboðum hjá ríki og sveitarfélögum. „Ríkið hefur mikið verið að auglýsa eftir leiguhúsnæði síðustu ár, sem er kannski ekki eitthvað sem margir hafa tekið eftir, en stofnanir hafa verið að sameinast og breyta um húsnæði. Má þar nefna Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun, Vegagerðina, Vinnueftirlitið og fleiri og höfum við náð megninu af þessum verkefnum,“ segir Helgi sem segir það vera vegna ákalls um aukið hagræði.

„Opinberir aðilar hafa verið með mörg gömul hús sem hafa verið orðin léleg og þörf verið á endurnýjun. Mikið af nýja húsnæðinu er án virðisaukaskattskvaða sem hentar mjög vel til að bjóða opinberum aðilum, því þeir geta ekki tekið við kvöðunum. Þetta snýst um skattalegt hagræði, en þessar eignir voru keyptar eftir hrun og því verið hægt að hreinsa kvaðirnar af þeim og við pössuðum upp á að ráðstafa þeim rétt.“

Helgi segir það ekki koma niður á tekjunum að hafa stöðuga langtímaleigjendur. „Nei, það er fín leiga af þessu líka og góð arðsemi. Eftir kaupin á Fast-1 sem eiga Höfðatorgið og fleiri eignir sem við erum að fá afhendar núna, eru 36% af tekjum okkar frá aðilum sem eru svona sérlega stöðugir, það er ríki, sveitarfélög, skráð félög á markaði og tveir viðskiptabankanna. Okkur finnst þetta gríðarlega góður árangur enda erum við með þessu orðnir næstum jafnstórir og Reitir,“ segir Helgi sem hefur metnað fyrir enn meiri vexti.

Gefur lítið fyrir gagnrýni

Helgi segir að vegna aukinnar eftirspurnar á byggingamarkaði hafi félagið verið nokkuð að draga saman seglin í framkvæmdum fyrir utan það allra nauðsynlegasta í viðhaldi og að klára þau verkefni sem þegar eru komin af stað.

„Við höfum síðustu ár eytt miklu púðri í breytingar í Smáralind og uppbyggingu Hafnartorgsins sem við komum að, og það hefur gengið mjög vel. Við höfum svo verið að fá þangað inn stór erlend vörumerki,“ segir Helgi sem gefur lítið fyrir gagnrýni á byggingamagn og stílinn á nýju húsunum í Kvosinni.

„Það er auðvitað fullt af sjálfskipuðum sérfræðingum sem vita og kunna allt, en þetta verkefni er búið að vera í þróun í tuttugu ár, síðan ákveðið var að fara í þessa vegferð með þessa lóð.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .