Auknar framkvæmdir sem stjórnvöld boðuðu til að bregðast við niðursveiflu í hagkerfinu, og juku svo við vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, hafa látið bíða eftir sér, sem og aukið fjármagn úr bönkunum. Verktakar í íbúðabyggingum færa sig í útboðsverkefni og auka samkeppni um þau, meðan íbúðaleigufélög fyrir sértæka hópa taka yfir.

Karl Andreassen
Karl Andreassen
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Karl Andreassen, forstjóri Ístak, segir, að verkefnastaðan á byggingamarkaði sé þokkaleg þó að framkvæmdir einkaaðila hafi mikið til dottið niður, en Karl hefur áhyggjur af seinagangi hjá stjórnvöldum að koma boðuðum verkefnum af stað í útboðsferli.

„Það eru engin verkefni í hóteluppbyggingu í kortunum lengur en það var orðin mettun á markaðnum með hótel áður en Covid kom til sögunnar, en svo hafa fjölbýlishúsaverkefnin farið minnkandi líka, enda hafa bankarnir dregið úr lánastarfsemi til þessara aðila með háum eiginfjárkröfum.

Isavia var líka með stór plön sem ekki hefur orðið af og loks eru engar framkvæmdir í farvatninu hjá Landsvirkjun sem er mjög óeðlilegt því það hafa alltaf verið einhverjar virkjanaframkvæmdir sem hafa tekið til sín töluverðan mannskap.

Hins vegar hafa svona miðlungsstór byggingaverkefni verið að koma inn á vegum hins opinbera en það er töluverð samkeppni um þau frá aðilum sem eru aftur að koma inn á þann markað núna eftir að hafa aðallega verið að sinna einkaframkvæmdum, þá annað hvort fyrir ýmiss konar þróunarfélög eða verið að byggja og selja sjálfir,“ segir Karl.

Sjá einnig: Vaxtalækkunin ekki að skila sér

„Stjórnvöld hafa verið fljót að kasta verkefnum á borðið, en það virðist erfiðara að koma þeim frá sér í útboð. Núna er Vesturlandsvegurinn í einhverju ferli og svo er ekki hægt að halda áfram með Reykjanesbrautina því það vantar leyfi fyrir framkvæmdinni. Það eru ýmis konar reglugerðarvesen í þessu og svo vantar oft samninga við landeigendur sem aldrei virðist farið í fyrr en liggur við að búið sé að ákveða að fara í framkvæmdina. Það eru þannig einhver brúarverkefni í kortunum á Suðurlandi þar sem enn er ekki búið að semja við landeigendur.“

Karl segist þó ekki hafa miklar áhyggjur af því að verkefnin frá stjórnvöldum komi ekki nógu hratt inn í stað þeirra sem hafa verið að detta upp fyrir vegna efnahagsástandsins.

„Það er alveg fyrirséð að einhver minnkun verður, þetta er slaki, en ekki mjög brattur. Síðan á eflaust eftir að bætast við í verkefnum hjá hinu opinbera en ég hugsa að eftir þennan mikla samdrátt hjá einkaaðilum að það fari hægt af stað aftur hjá þeim. Áður fyrr komust þeir af stað með litlu eigin fé, en núna er búið að gera svo háar kröfur um það. Ég bind þó vonir við aukna einkaframkvæmd í vegagerð, eins og með þessi PPP verkefni sem frumvarp liggur nú fyrir um, en í þeim eru stór verkefni sem væri mjög fínt ef hægt væri að flýta,“ segir Karl.

Innviðagjöld þyngja róðurinn fyrir fyrstu kaupendur

„Þó við séum lítið í því sjálfir sjáum við svo áherslubreytingar á íbúðamarkaði, en þar hefur of lengi verið byggt fyrir markhóp sem er ekki lengur til að taka við þessu, það er of dýrar og stórar íbúðir sem verið hefur erfiðara að losa sig við og selja. Núna fæst ekki lengur fjármögnun í þannig verkefni en hún fæst í verkefni sem eru stíluð inn á fyrstu kaupendur og minni eignir, það virðist vera markhópurinn núna. Ég held það verði byggt svolítið fyrir hann og ég held það sé alveg þörf á því líka.“

Að sögn Karls hefur Reykjavíkurborg komið inn með nokkra reiti sem henta þessum hópi, en það skjóti skökku við að hún rukki innviðagjöld af öðrum þéttingarreitum á sama tíma og talað er um að auðvelda aðgang fyrstu kaupenda.

„Á þeim verður fermetraverðið allt of dýrt fyrir þessa fyrstu kaupendur, líka vegna þess að vinnustaðurinn verður erfiðari með þrengri aðkomu svo þar verður dýrara að byggja sem og það þarf að rífa og breyta skipulagi,“ segir Karl, en á sama tíma eru leigufélög eins og Bjarg á vegum verkalýðsfélaganna að fá ódýrar nýbyggingarlóðir.

„Bjarg er að byggja eitthvað á milli 400 og 500 íbúðir núna, við erum með eitt verkefni fyrir þá, og svo skilst mér að þeir ætli að halda áfram að byggja og stefnan sé sett á einhverjar 12 til 14 hundruð íbúðir. Þessir sértæku íbúðaleigufélög eru mikið að taka yfir og eru áberandi á sama tíma og einkaaðilar eru ekki að byrja með ný verkefni.“

Nánar er fjallað um málið Framkvæmdablaðinu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .