Vefhýsingarfyrirtækið 1984 sem þjónustar vefsíður og tölvupóstkerfi fjölmargra íslenskra fyrirtækja hafa orðið fyrir því sem þeir kalla gríðarlega tæknibilun og liggja síður og tövupóstar viðskiptavina fyrirtækisins niðri og hafa gert það frá því í gær.

Segir á vefsíðu fyrirtækisins að starfsmenn þess muni ekki una sér hvíldar fyrr en þeir hafi skýrari mynd af því hvað hægt sé að gera og hvort hægt sé að bjarga efni fólks.

Segir í villuskilaboðum á síðu fyrirtækisins að sum þjónusta gæti jafnvel verið gjörsamlega ónýt, þó önnur ætti að komast í gagnið fljótlega. Jafnframt segir fyrirtækið að það geti enn tekið við tölvupóstum og að þeir muni komast til skila þegar fram líða stundir.

Fyrirtækið 1984 ehf. var stofnað árið 2006, og segja þeir á heimasíðu sinni ætla að reyna að ná tveimur að því virðist ósamrýmanlegum markmiðum, það er að bjóða vefhýsingu, tölvupóstþjónustu og sýndarþjóna á alþjóðlega samkeppnishæfu verði á sama tíma og þeir noti ávalt fyrsta flokks tölvubúnað.

Jafnframt hyggst fyrirtækið hafa tölvubúnað sinn á Íslandi, til þess að auka snerpu og hraða á vefjum til að þjónusta íslenska viðskiptavini sína.