Hlutabréfavísitölur í bæði Evrópu og Asíu hafa lækkað töluvert það sem af er degi vegna ótta fjárfesta við áhrif kórónaveirunnar á heimshagkerfið. Í Asíu hefur japanska NIKKEI 225 vísitalan lækkað um 2,03% og CSI 300 vísitalan í Shanghai um 3,1%.

Þá hafa nær allar vísitölur í Evrópu lækkað. Euro Stoxx 50 vísitalan hefur lækkað um 1,21% það sem af er degi, FTSE 100 vísitalan í Bretlandi um 1,45%, þýska DAX vísitalan um 1,39%, CAC 40 í Frakklandi um 1,45% og spænska IBEX 35 um 0,88%.

Meðal þeirra félaga sem hafa lækkað hvað mest eru meðal annars þýska flugfélagið Lufthansa sem hefur lækkað um rúm 5%, þýsk-hollenska flugfélagið Air France KLM um rúmlega 4% auk þess sem bréf lúxusfataframleiðandans Burberry hafa lækkað um 4,5%. Þá hafa bréf lúxusvöruframleiðandans LVMH lækkað um tæplega 3%.

Þá hefur verð á ýmsum hrávörum lækkað töluvert. Eins og greint var frá í morgun hefur olíuverð lækkað um 2,5% það sem af er degi auk þess sem verð á járngrýti, sem er nátengt væntingum um kínverska hagkerfið, lækkað um 6,6% það sem af er degi.