Birgir Bieltvedt hefur um nokkurt skeið verið meðal stórtækustu fjárfesta í veitingageiranum hér á landi. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins var greint frá því að Eyja fjárfestingarfélag, sem er í eigu Birgis og eiginkonu hans Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, hafi fest kaup á fasteigninni að Suðurlandsbraut 18 af fasteignaþróunarfélaginu Festi, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar og eiginkonu hans, Ingibjargar Kristjánsdóttur. Kaupverð fasteignarinnar, sem í daglegu tali er oft kölluð Esso-húsið, nemur 1,2 milljörðum króna.

Í viðtalinu er rætt við Birgi um umrædd viðskipti en auk þess kemur Birgir inn á stöðu veitingageirans, sem hefur líkt og margar aðrar greinar, munað fífil sinn fegurri sökum kórónuveirufaraldursins. Hann segir stöðu veitingageirans hafa verið erfiða undanfarin tvö ár.

„Þetta er búinn að vera hrikalega erfiður tími. Það má segja að það hafi farið að harðna í ári í byrjun árs 2019 með falli Wow air, þar sem ferðamönnum fækkaði í kjölfar þess. COVID-19 hefur vitaskuld einnig haft slæmar afleiðingar í för með sér og það má því segja að veitingageirinn sé vængbrotinn eins og staðan er í dag. Ofan á fyrrgreinda þætti hafa bæst miklar launahækkanir síðustu árin, á meðan verðlag hefur nánast haldist óbreytt. Launakostnaður er því farinn að vega mun þyngra en áður og á sama tíma er samkeppnin orðin enn meiri. Það er því engin gósentíð í veitingabransanum þessa stundina og hefur svo sem ekki verið það undanfarin misseri."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .