Laun aðstoðarmanns borgarstjóra taka mið af launum aðstoðarmanns forsætisráðherra. Fulltrúar meirihlutans telja rétt að athuga hvort borgarstjóri eigi að hafa fleiri aðstoðarmenn.

Þetta kemur fram í svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Í svarinu segir að heildarlaun Péturs Krogh Ólafssonar, aðstoðarmanns borgarstjóra, séu rúmlega 19 milljónir króna á ári. Inn í því eru laun og öll launatengd gjöld.

Laun Péturs eru því um 1,3 milljónir á mánuði. Pétur fær einnig endurgreiddan ferðakostnað en árið 2017 nam hann 1,1 milljón króna og tæplega 713 þúsund árið 2018.

„Full þörf er á því að borgarstjóri hafi aðstoðarmann enda hefur það embætti verið við lýði í aldarfjórðung. Frekar ætti að vekja máls á því að borgarstjóri sé áfram með einn aðstoðarmann á meðan ráðherrar hafa fengið heimild til að ráða tvo og þrjá,“ segir í bókun meirihluta borgarráðs.

„Á skrifstofu borgarstjóra á síðasta ári störfuðu yfir 50 manns en skrifstofan kostaði yfir 800 milljónir, þar af kostar pólitískur aðstoðarmaður borgarstjóra skattgreiðendur 20 milljónir á ári hverju,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfur er borgarstjóri með um tvær milljónir á mánuði í laun. Launin höfðu tekið mið af launum forsætisráðherra en eftir hækkun kjararáðs árið 2016 var því hætt. Með setu í ýmsum stjórnum og í gegnum fastan starfskostnað hækka launin upp í tvær milljónir rúmar. Forsætisráðherra er síðan með rétt rúmar tvær milljónir á mánuði í laun.