Fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga þá dróst velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi saman um 1,3% í janúar og febrúar frá sama tímabili fyrir ári. Nam hún alls 533 milljörðum króna þessa fyrstu tvo mánuði ársins í ár að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar .

Hins vegar jókst veltan um 3,6% á 12 mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017, miðað við síðustu 12 mánuði þar á undan. Hafa verður í huga í samanburðinum að starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum varð ekki virðisaukaskattskyld fyrr en einmitt þarna í ársbyrjun 2016.

Heildarveltan þessa tvo mánuði í starfsemi sem er virðisaukaskattskyld nam 549 milljörðum, sem er lækkun  um 1% frá sama tímabili árið 2016. Þrátt fyrir þetta jókst veltan í flestum einkennandi greinum ferðaþjónustunnar frá því í mars á síðasta ári þangað til í febrúar í ár, eða um 27%, miðað við sama tímabil árið áður.

Velta ferðaskrifstofa jókst á milli ára um 31%, ef horft er á fyrstu tvo mánuði ársins, miðað við árið 2016, en þá voru þær nýlega orðnar virðisaukaskattskyldar. Einnig jókst veltan í greinum tengdum byggingarstarfsemi og sölu og viðhaldi á bílum og tækjum, eða um 36% annars vegar og 17% hins vegar, en Hagstofan telur líklegt að vöxtur þar komi til af áhrifum af ferðaþjónustunni.