Rekstrartekjur Iceland Salmon, móðurfélags Arnarlax á Bíldudal, námu 90,8 milljónum evra eða um 12,7 milljörðum króna á síðasta ári sem er 47% aukning frá fyrra ári. Í tilkynningu Icelandic Salmon segir að markaðir fyrir laxaafurðir hafi haft jákvæð áhrif á reksturinn. Félagið hyggst ráðstafa hagnaðinum í frekari uppbyggingu.

Rekstrarhagnaður (EBIT) fyrirtækisins nam 7,3 milljónum evra í fyrra, eða rúmum milljarði króna, sem er verulegur viðsnúningur frá tæplega 4,6 milljóna evra tapi ársins á undan. Rekstrarhagnaður félagsins jafngildir um 0,63 evrum á hvert kíló fisks.

Heildaruppskera Icelandic Salmon nam 11.563 tonnum sem er 2,6% meira en í fyrra en 47% tekjuaukning má rekja til hærra afurðaverðs á helstu mörkuðum. Stjórnendur gera ráð fyrir áframhaldandi góðum árangri og að uppskera yfirstandandi árs verði í kringum 16.000 tonn.

Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon:

„Árið 2021 var það besta í sögu fyrirtækisins á alla helstu mælikvarða og voru mörg stór skref stigin í átt að enn betri árangri í framtíðinni. Starfsfólki fjölgaði með ráðningum í ýmis ný hlutverk bæði stjórnenda og sérfræðinga. Þá voru mun minni afföll í framleiðslunni sem er mikið hrós fyrir starfsfólk okkar og til marks um þær úrbætur sem gerðar hafa verið í ræktunarferlinu á síðustu árum. Einnig kynntum við nýtt vörumerki, Arnarlax - Sustainable Iceland Salmon, sem var mikilvægur áfangi í að kynna áherslu okkar á sjálfbærni og græna framleiðslu.“