Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir grænar lausnir tapaði 8,4 milljónum króna í fyrra, samanborið við 48 milljón króna tap árið áður. Samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar hefur reksturinn og hugbúnaðarþróun gengið samkvæmt áætlun, og fjölgaði viðskiptavinum mikið á seinni hluta síðasta árs.

Áhersla er sögð hafa verið lögð á að undirbúa hugbúnaðarlausnir félagsins þannig að hægt væri að skala söluna hratt upp á erlendum mörkuðum. Tekjur félagsins námu 242 milljónum í fyrra og jukust um 15% frá fyrra ári, og afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var jákvæð um 34 milljónir, samanborið við neikvæða upp á 13 milljónir árið áður. EBITDA-hlutfall fór því úr -6% í 13,9%.

Heildareignir lækkuðu um 5% milli ára og námu 343 milljónum í árslok 2018, og eigið fé lækkaði um 3% og nam 251 milljón. Eiginfjárhlutfall nam því 73,2% og hækkaði um 1,5%. Veltufjárhlutfall félagsins hækkaði auk þess úr 3,9 í 4,7.

Greidd laun námu 127 milljónum og jukust um 9%, en ársverkum fjölgaði úr 12 í 16. Meðallaun námu því 661 þúsund krónum á mánuði og lækkuðu um tæpan fimmtung milli ára.