Rekstrartekjur Íslandshótela hf. námu tæpum 9,9 milljörðum króna í fyrra samanborið við tæplega 6,9 milljarða árið 2015. Þetta er aukning um 43% á milli ára. Íslandshótel reka 18 hótel um allt land meðal annars Grand Hótel í Reykjavík og Fosshótel Reykjavík. Í árslok 2016 voru eignir félagsins metnar á ríflega 30 milljarða samanborið við rúmlega 26 milljarða ári áður.

Hagnaður Íslandshótela nam tæplega 900 milljónum króna í fyrra en árið 2015 hagnaðist fyrirtækið um ríflega 600 milljónir. Þetta er aukning upp á tæplega 43%.

„Reksturinn gengur mjög vel"

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að aukna veltu megi rekja til þess að árið í fyrra hafi verið fyrsta heila rekstrarár Fosshótels Reykjavíkur. Einnig hafi Fosshótel Jökulsárlón opnaði í júní í fyrra og það hafi haft áhrif á afkomuna. Því til viðbótar hafi almennt verið aukning á öllum hótelum keðjunnar í fyrra.

„Reksturinn gengur mjög vel," segir Davíð Torfi. „Árið í fyrra var mjög gott og töluvert umfram áætlanir í tekjum. EBITDA var á pari við áætlanir eða rétt undir þremur milljörðum. Það skýrist fyrst og fremst af styrkingu krónunnar en einnig launaþróun og hækkandi hráefniskostnaðar."

Davíð Torfi segir að áætlanir fyrir þetta ár geri ráð fyrir að veltan verði um 12 milljarðar og EBITDA um 3,8 milljarðar.

„Eins og staðan er í dag þá erum við á pari við áætlanir en ef við værum að tala um sama miðgengi evru og var í janúar til maí í fyrra þá værum við um 400 milljónum yfir áætlun. Það má því segja að vegna styrkingar krónunnar séum við búin að tapa 400 milljónum. Ég verð að segja að ég finn til með litlum aðilum í ferðaþjónustu og einyrkjum. Sérstaklega þeim sem eru úti á landsbyggðinni og ekki í alfaraleið. Þar hriktir örugglega vel í stoðum því þessir aðilar eru viðkvæmari fyrir styrkingu krónunnar en stóru fyrirtækin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .