Það er ekkert við að miða, óvissan er veruleg og fólk hangir í lausu lofti. Það er ekki hægt að leita ráða hjá neinum, enda hafa meira að segja reynslumestu ferðaþjónustuaðilar ekki þurft að takast á við viðlíka ástand," segir Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár, inntur eftir því hvernig staða ferðaþjónustunnar blasi við honum þessa stundina, en líkt og frægt er orðið hefur COVID-19 heimsfaraldurinn leikið ferðaþjónustuna grátt, bæði hér á landi sem og annarsstaðar úti í hinum stóra heimi.

„Staða ferðaþjónustunnar, hvernig sem á hana er litið, er mjög alvarleg. Mér finnst óraunsætt að reikna með að hún nái sömu hæðum á næstu misserum og við upplifðum undanfarin ár. Það gerist samt vonandi á næstu árum en erfiðleikarnir sem fylgja því að halda fyrirtækjum í ferðaþjónustunni gangandi, meðan óvissan gengur yfir, er gífurlega stórt verkefni," bætir hann við.

Veltan úr 50 milljónum niður í 3 milljónir

Spurður um núverandi stöðu á rekstri Hótels Rangár, segir Friðrik að það sama eigi við um Hótel Rangá og alla aðra ferðaþjónustuaðila - óvissan sé gríðarleg og því nær ómögulegt að gera áætlanir til langs tíma.

„Við héldum hótelinu opnu allan tímann, þrátt fyrir samkomubann og fleiri sóttvarnaraðgerðir. Til þess að þurfa ekki að ráðast í uppsagnir nýttum við hlutabótaúrræði stjórnvalda fyrir starfsmenn okkar, sem var gott framtak hjá stjórnvöldum til þess að koma til móts við þær alvarlegu afleiðingar sem COVID-19 hefur haft á ferðaþjónustuna hér á landi. Í mars voru enn ferðamenn á landinu en svo hurfu þeir auðvitað í apríl. Í apríl í fyrra vorum við að velta um 50 milljónum króna en í apríl í ár féll veltan niður í 3 milljónir króna. Veltan tók þó aðeins við sér í maí, en var ekki í nokkurri líkingu við það sem hún hefur verið á undanförnum árum."

Friðrik segir að starfsfólk hótelsins fagni mjög þeim Íslendingum sem heimsæki nú hótelið í stórum stíl. Það sé þó ljóst að innanlandsmarkaðurinn geti ekki fyllt í það stóra skarð sem stöðvun á komu erlendra ferðamanna skilur eftir sig.

„Bæði hótelið og veitingastaðurinn eru opin alla daga vikunnar, enda reynum við að samtvinna þetta tvennt með því að selja upplifunina saman í pakka. Frá því í byrjun maí hafa nær allar helgar hjá okkur verið mikið bókaðar en svo er talsvert minna að gera á virkum dögum. Við gerum okkur vonir um að helgarnar verði áfram að mestu fullbókaðar í sumar," segir hann og bætir við að þegar landsmenn fari að tínast í sumarfrí í meiri mæli megi reikna með að meira verði að gera á virku dögunum.

Taka bókunum að utan með fyrirvara

„Við höfum líkt og við mátti búast lent í miklum afbókunum frá erlendum ferðamönnum. Eftir að greint var frá því að rýmkað yrði fyrir komu farþega að utan inn í landið þann 15. júní höfum við fengið nokkrar bókanir á dag að utan. Allar þær bókanir eru háðar ýmsum fyrirvörum, líkt og að landið verði opið og að farþegarnir geti ferðast frá heimalandi sínu hingað til lands. Bæði við og þeir sem eru að bóka gera sér grein fyrir því að þetta er háð fullkominni óvissu á margan hátt," segir Friðrik.

„Eins og staðan er í dag vonumst við til að fá eitthvað aðeins út úr sumrinu en svo þegar við lítum fram á næsta vetur þá er staðreyndin sú að við höfum verið mjög háð komu erlendra gesta á því tímabili í norðurljósaog stjörnuskoðun. Við höfum vitaskuld einnig tekið á móti Íslendingum en langflestir gestanna eru erlendir ferðamenn. Hver staðan verður á komu erlendra ferðamennina í vetur veit enginn á þessu stigi," bætir hann við.

Nánar er rætt við Friðrik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .