S&P 500 vísitalan lækkaði um fjögur prósentustig í september eftir að hafa hækkað samfellt í fimm mánuði í röð, frá og með apríl til september, um alls 42%. Mest hækkaði vísitalan í aprílmánuði um 12,7% eftir að hafa lækkað um 12,5% í mars.

Vísitalan lækkaði í nýliðnum septembermánuði þrátt fyrir að hafa hækkað um tæplega eitt prósent í viðskiptum gærdagsins. Ekki tókst að semja um fimmta aðgerðarpakka Bandaríkjanna vegna fjárhagsaðstoðar til að stemma stigu við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Umræður vegna aðgerðarpakkans munu halda áfram í vikunni. Umfjöllun á vef CNBC.

Það sem af er ári hefur S&P 500 vísitalan hækkað um ríflega þrjú prósentustig. Þar vegur hækkun tæknirisanna þungt. Til að mynda hafa hlutabréf Amazon hækkað um 60% og bréf Apple um 54%.

Til samanburðar hefur úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi, OMXI10, lækkað um tæplega tvö prósent á þessu ári. Gengi hlutabréfa Marel hefur haft mikil áhrif á þá þróun, enda um 60% af markaðsvirði vísitölunnar, en bréf félagsins hafa hækkað um 11% á þessu ári.