Venesúela hefur verið úrskurðað í greiðslustöðvun af matsfyrirtækinu Standard&Poors sem ýtir ríkinu enn nær brúninni hvað varðar 150 milljarð dollara skuldir landsins. Ákvörðunin var tekin vegna þess að Venesúela fór fram úr greiðslufresti á tveimur vaxtagreiðslum af lánum sínum að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal .

Ákvörðunin kom á sama degi og Venesúela lofaði á fundi í Caracas, höfuðborg landsins, að halda áfram að greiða af skuldum sínum. Fundurinn var haldinn með nokkrum af kröfuhöfum landsins á vesturlöndum sem yrðu illa úti færi ríkið formlega í greiðslustöðvun.

Standard&Poors lækkaði lánshæfismat Venesúela niður í valkvæða greiðslustöðvun, en það er þegar ríki ákveður að greiða ekki af sumum skuldum sínum á meðan það heldur áfram að greiða af öðrum. Ákvörðun matsfyrirtækisins gæti haft víðtækar afleiðingar fyrir ríkið og kröfuhafa þess.