Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,1% milli apríl og maí. Verð á fjölbýli hækkaði óverulega og verð á sérbýli hækkaði um 2,8%.

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 2,9% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 9,2%. Þetta kemur út í Hagsjá Landsbankans. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 4,6% og hefur árshækkunin ekki verið minni síðan um mitt ár 2013. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í maí hækkað um 2,7% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 1,8% næstu sex mánuði þar á undan.

Veruleg hækkun fasteignaverðs á síðustu misserum hefur orðið samhliða mjög lítilli verðbólgu og reyndar hefur verðbólga án húsnæðis verið neikvæð í langan tíma. Raunhækkun húsnæðisverðs mæld á föstu verðlagi án húsnæðis hefur því verið veruleg, en verulega hefur þó hægt á árshækkuninni síðustu mánuði. Þannig var raunverð fasteigna nú í maí um 4,7% hærra en það var í maí 2017.

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu tóku töluverðan kipp upp á við í maí og hafa ekki verið meiri frá því í mars í fyrra. Sé litið á fjölda viðskipta fyrstu 5 mánuði ársins voru þau orðin eilítið meiri en á sama tíma í fyrra.

Eins og alltaf er varasamt að horfa mjög mikið á niðurstöðu einstakra mánaða við mat á verðþróun á fasteignamarkaði. Þróunin allt frá miðju síðasta ári sýnir að kaflaskil hafi orðið á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu. Verð á fjölbýli er enn stöðugt, en verð á sérbýli tók nokkuð stökk upp á við nú eftir tiltölulega rólega tíma. Að öllu jöfnu ætti sumarið að verða tiltölulega rólegt, en fasteignamarkaðurinn hefur sýnt að hann getur hagað sér öðruvísi segir í Hagsjánni.