„Hlutabréf í Asía tóku við sér í nótt og enduðu lengsta lækkunarferli í 16 ár og hækkuðu sumar vísitölur vel á annað prósent. Hlutabréf vestra voru upp og niður, skuldabréfavextir sigu aðeins og svo virðist sem menn þar einblíni mikið á fellibylinn og Florence og afleiðingar hans.“ Þetta kemur fram í greiningu frá IFS. Markaðir í Evrópu bíða vaxtaákvörðunar á evrusvæðinu og Bretlandi og reyndar víðar í álfunni.

Olían hækkar enn

Olía heldur áfram að hækka og í gær fór Brent yfir 80 bandaríkjadali. Minna framboð, einkum frá Íran, lág birgðastaða vestra og óvissa um viðbrögð stórframleiðenda eins og Rússa og Sáda er helsta skýringin. „Yfirvofandi fellibylur, Florence, er ekki að bæta ástandið. OPEC ríkin munu funda síðar í mánuðinum til að ákvarða framleiðslu- og framboðskvóta,“ kemur jafnframt fram.