Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í september 2019 var 470,5 stig og hækkar um 0,09% frá fyrri mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru fyrir skömmu. Verðbólga í mánuðinum var 0,06 prósentustigum undir spám greiningardeilda bankanna en meðaltal þeirra gerði ráð fyrir 0,15% hækkun milli mánaða. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 402,0 stig og hækkar um 0,10% frá ágúst.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,0% en vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 2,9%.

Verð á fatnaði og skóm hækkaði um 4,2% sem hafði 0,18% áhrif á vísitöluna. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 8,6% sem hafði 0,13% áhrif á vísitöluna. Er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem flugfargjöld til útlanda lækka sem undirliður í vísitölu neysluverðs. Fram að falli WOW air höfðu flugfargjöld lækkað alls 42 mánuði í röð en hækkuðu svo apríl til júní áður en þróunin snerist aftur við í júlí eins og fjallað var um á dögunum .