Verðbólga fór niður fyrir neðri fráviksmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í ágúst. Þá mældist hún vera 0,9% sem er fyrir neðan 1% neðra mark verðbólgumarkmiðsins, sem miðast við 2,5%, en er með 1,5 prósentustiga fráviki.

Síðustu þrjá mánuðina hefur verðbólgan hjaðnað samhliða hækkun á gengi krónunnar, lágs olíuverðs og lítillar alþjóðlegrar verðbólgu.

Var skammvinnt síðast

Þetta kemur fram í greinargerð sem Seðlabankinn hefur sent frá sér af þessu tilefni, samkvæmt lögbundnu hlutverki sínu, en þetta hefur einu sinni áður gerst síðan verðbólgumarkmiðinu var komið á, það er í lok árs 2014.

Það frávik var þó einungis skammvinnt, því þremur mánuðum seinna var verðbólgan komin á ný inn fyrir fráviksmörkin. Hefur verðbólgan síðan þá mælst á bilinu 1,5% til liðlega 2%, eða eins og segir í greinargerðinni, undir verðbólgumarkmiðinu, en innan fráviksmarkanna.

Verðhjöðnun ef húsnæði er sleppt

Ef horft er á vísitölu neysluverðs án þess að taka tillit til verðþróun á húsnæði, er verðbólgan orðin neikvæð um 0,9%, en þessi mælikvarði hefur verið undir 1% síðan í ársbyrjun 2015.

Verðhækkanir húsnæðis hafa verið helsti drifkraftur ársverðbólgunnar og nam árshækkun húsnæðisliðar vísitölunnar 7,3% í ágúst, en framlag innlendrar vöru til ársverðbólgu hefur einnig aukist undanfarna mánuði, eða um 2,4%.

Meiri efnahagsbati en í viðskiptaríkjum Íslands

Þann 24. ágúst síðastliðinn tilkynnti peningastefnunefnd seðlabankans um lækkun meginvaxta bankans um 0,5 prósentustig, úr 5,75% í 5,25%, og var rökstuðningur nefndarinnar sá að í ljósi hagstæðrar verðbólguþróunar, bættra verðbólguhorfa og vísbendinga um traustari kjölfestu langtímaverðbólguvæntinga sá að hægt sé að halda verðbólgu við markmið til millilangs tíma með lægri vöxtum en nefndin hafði áður talið.

Ástæða hærra vaxtastigs hér á landi en í nágrannaríkjum kemur þó til af meiri efnahagsbata hér á landi en í viðskiptaríkjum, hækkun langt umfram það sem gerist í þróuðum ríkjum, slaki hafi snúist í spennum og þar til nýlega að verðbólguvæntingar voru fyrir ofan markmiðið.