Ársverðbólga í Tyrklandi mældist 70% í apríl, samanborið við 61% í mars, og hefur ekki verið meiri í tvo áratugi. Vísitala neysluverðs í landinu hækkaði um 7,3% á milli mánaða, samkvæmt tölum sem tyrkneska hagstofan birti í dag. Líran veiktist um nærri eitt prósent eftir birtinguna.

Verðbólgutölurnar voru yfir væntingum svarenda könnunar Reuters sem áttu von á 68% verðbólgu. Þátttakendur gera ráð fyrir að verðbólgan verði enn yfir 50% í árslok.

Verðbólguskotið skýrist af stórum hluta af hækkandi orkuverðið en veiking lírunnar, gjaldmiðils Tyrklands hefur ekki hjálpað til í þeim efnum. Þá hækkaði undirvísitalan fyrir mat- og drykkjarvörur um 89% á milli ára.

Í umfjöllun Reuters er bent á að þingkosningar í Tyrklandi fari fram í júní 2023. Skoðanakannanir gefa til kynna að stuðningur við Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands fari dvínandi.