Verðbólguálag á íslenskum skuldabréfamarkaði hefur ekki verið hærra í langan tíma. Athygli vekur hversu breitt bilið er á milli verðbólguálags á markaði, sem var 4,6% til 5 ára og 4% til 10 ára á fyrsta ársfjórðungi 2022, og verðbólguvæntingum markaðsaðila, sem voru 3% til 5 ára og 2,75% til 10 ára.

Þó ber að hafa í huga að verðbólguálagið er reiknað út frá vaxtamun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa. Það segir ekki bara til um hverjar verðbólguvæntingarnar eru, heldur inniheldur það einnig áhættuálag tengdu seljanleika bréfanna og vegna verðbólguóvissu.

Þá kemur fram í þjóðhagsspá Íslandsbanka 2022-2024 að miðað við vaxtaferla á markaði virðist talsverð stýrivaxtahækkun þegar hafa verið verðlögð inn í langtímavexti.

Stefán Helgi Jónsson, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir síðustu mánuði á skuldabréfamarkaði hafa markast mjög af auknum verðbólguvæntingum og samhliða því væntingar um frekari vaxtahækkanir, bæði hér heima og á erlendum mörkuðum.

„Jákvæðar fréttir af krónunni undanfarið, bæði úr ferðaþjónustunni og svo í formi innflæðis erlendra fjárfesta, hafa leitt til þess að krónan er nú komin í þau gildi sem hún var í fyrir Covidfaraldurinn. Minni útgáfuþörf ríkisins og sterkari króna ættu því að að öðru óbreyttu að létta á þeirri pressu sem verið hefur nafnvaxtamegin á skuldabréfamarkaðnum," segir Stefán Helgi.

Óverðtryggða vaxtarófið nokkuð flatt

Þegar óverðtryggða vaxtarófið er skoðað vekur athygli að lítill sem enginn munur er á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisskuldabréfa með lokagjalddaga á árunum 2024-2042. Sérfræðingar á skuldabréfamarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við bentu á að ákveðið áhættuálag ætti að endurspeglast í ávöxtunarkröfum á lengri endanum, til að mynda vegna aukinnar verðbólguóvissu til lengri tíma. Í ljósi þess að lengri endinn í óverðtryggðu ríkisskuldabréfunum er yfir mati ýmissa aðila á jafnvægisnafnvöxtum má ætla að sá mikli verðbólgukúfur sem íþyngir hagkerfum alþjóðlega núna sé að þrýsta upp styttri enda rófsins, sem fletur rófið út.

Í eðlilegu árferði ætti rófið því að vera meira upphallandi en í ljósi verðbólgunnar má gera ráð fyrir miklum vaxtahækkunum til skemmri tíma sem valdi því líklega að rófið sé ekki meira upphallandi.

Áhættuálag á óvissutímum

Munurinn á nafn- og raunvöxtum segir ekki einungis til um verðbólguvæntingar heldur inniheldur hann líka svokallað áhættuálag. Niðurstaða rannsóknar á Bandaríkjamarkaði var að áhættuálagið þar í landi lægi á bilinu 0-0,33% til eins árs og 0,5-1% til tíu ára. Hins vegar gefa rannsóknir á evrusvæðinu vísbendingar um að áhættuálagið þar til tíu ára sé töluvert lægra, einungis 0,25%.

Margar rannsóknir benda til þess að áhættuálagið hækki því lengra sem farið er inn á vaxtarófið sem orsakist af aukinni óvissu um þróun verðbólgu. Það má því leiða líkur að því að verðbólguálagið á íslenskum skuldabréfamarkaði í dag orsakist ekki einungis af háum verðbólguvæntingum heldur einnig háu áhættuálagi vegna aukinnar óvissu, til skemmri og lengri tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .