Viðmiðunarmörk vegna undanþágu frá útgáfu lýsingar verða andvirði 8 milljónum evra í íslenskum krónum samkvæmt frumvarpi um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Viðmiðunarfjárhæðin hækkaði um tæpan helming frá því sem áætlað var í frumvarpsdrögum.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á lýsingareglugerð Evrópusambandsins en með því er meðal annars stefnt að því að greiða götu lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að fjármagna sig með skuldabréfaútgáfu. Í upphaflegum frumvarpsdrögum var gert ráð fyrir því að viðmiðunarmörkin yrðu 5 milljónir evra í íslenskum krónum.

Sjá einnig: Opni fyrir smærri á verðbréfamarkað

Í einu umsögninni sem barst um frumvarpsdrögin, frá Nasdaq á Íslandi, var sett út á að mörkin væru lægri hér en heimilt er. Hærri þröskuldur myndi auðvelda fyrirtækjum að sækja sér fjármagns á markaði auk þess að í helstu nágrannalöndum Íslands væri miðað við 8 milljón evra markið. Bagalegt væri að hafa sérstakar reglur sem giltu hér á landi um efnið.

„Kauphöllin telur líklegt að almennum útboðum verðbréfa og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði muni fjölga og umfang fjármögnunar í almennum útboðum aukast í kjölfar gildistöku laganna. [...] Meirihluti íslenskra félaga teljast vera lítil og meðalstór fyrirtæki í skilningi reglugerðarinnar og þau sem skráð eru eða ætla að skrá sig á vaxtarmarkað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki gætu nýtt sér einfaldara ferli og kröfur sem gerðar eru vegna smárra útgáfa verðbréfa,“ segir í umsögn Nasdaq á Íslandi um frumvarpið.