Stjórnendur Canopy Growth Corp. og Constellation Brands segja að lögleg framleiðsla á kannabis verði að 200 milljarða dala iðnaði. Kannabis, sem m.a. hass er framleitt úr, geti jafnvel ýtt til hliðar 500 milljarða Bandaríkjadala iðnaði á fjölmörgum sviðum.

„Okkar sjónarmið er að á næsta rúma áratugnum geti þetta orðið að 200 milljarða dala iðnaður um allan heim. Sumir myndu segja að það væri vanmat,“ sagði framkvæmdastjóri hjá Constellation, Bill Newlands á fjárfestaráðstefnu Jim Cramer´s í New York.

Fyrirtækið, sem á til að mynda áfengisvörumerki eins og Corona bjór og Robert Mondavi vín, greiddi nýlega 4 milljarða dala, eða sem nemur 465 milljörðum íslenskra króna, fyrir að auka hlut sinn í Canopy.

Hluturinn nemur nú 38% í félaginu sem stofnað var árið 2014 í Ontario ríki í Bandaríkjunum. Félagið er það fyrsta sem starfar undir alríkislögum í Bandaríkjunum við að framleiða cannabis. Viðskipti hófust með bréf í félaginu í kauphöll New York 24. maí síðastliðinn og er það jafnframt fyrsti kannabisframleiðandinn þar.

Markaðsvirðið tæpir 15 milljarðar dala

Jafnframt eru viðskipti með bréf í félaginu í kauphöllinni í Toronto í Kanada, undir skammstöfuninni WEED, en á miðvikudaginn, þann 17. október næstkomandi verður kannabis löglegt í landinu. Í bandarísku kauphöllinni fæst nú bréf í félaginu á 64,90 dali, eftir 5,89% hækkun á föstudag. Markaðsvirði félagsins nemur þá 14,93 milljörðum dala.

Stuðningsmenn laganna segja þau geta fært heilsufarslegan ávinning auk þess að losna við glæpi sem fylgja eiturlyfjaneyslu.
Andstæðingar hafa hins vegar áhyggjur af langtímaheilsufarslegum áhrifu og aðrir hafa áhyggjur af eftirliti með framleiðslunni að því er BBC fjallar um.

Forstjóri Canopy Growth, Bruce Linton, sem jafnframt var annar stofnandi félagsins, segir að kannabis iðnaðurinn geti jafnframt haft áhrif á iðnað að verðmæti allt að 500 milljarða dala samkvæmt frétt The Street .

Þar með talið:

  • Áfengi, forstjórinn segir að fyrirtækið geti framleitt drykki sem drukknir eins og vín en gætu verið kaloríulausir, sem smakkist vel og hefðu hugbreytandi áhrif.
  • Svefnlyf, Linton sagði félagið nú þegar vera með í gildi tilraunir að nota kannabis til að leysa svefnleysisvandamál.
  • Lyf sem lækna lystarstol. Þekkt er að kannabis auki lyst, þá oft fyrir óhollustu, en Linton segir að hægt sé að framleiða lyf sem hjálpi til að mynda krabbameinssjúklingum sem hafi misst lystina.
  • Íþróttadrykki. Linton segir að hægt sé að framleiða bólgueyðandi drykki sem gæti verið öflugur keppinautur við Gatorade.
  • Lyf við liðverkjum, vefjagigt og álíka sjúkdómum. „Við munum ekki lækna vandamálið en við getum mögulega minkað áhrifin.“
  • Dýralækningar. Hægt væri að nýta lyfjaáhrif af kannabis á dýr alveg eins og á menn.