Vefur Vesturbyggðar var nýlega valinn besti vefur ársins á íslensku vefverðlaununum. Vefurinn var hannaður af hönnunarstofunni Kolofon, sem er aðeins um ársgömul. Af fjórum stofnendum hennar – þremur hönnuðum og einum forritara – koma þrír frá auglýsingastofunni Brandenburg, og hafa þeir töluverða reynslu af því að vinna saman, en auk þess hefur einn starfsmaður bæst við síðan.

Hörður Lárusson, einn stofnendanna, segir sigurinn hafa komið á óvart. „Þetta er keppni með töluvert af flokkum. Við fengum tvær tilnefningar í ár, annars vegar fyrir vef okkar fyrir Amnesty á Íslandi í flokknum samfélagsvefir, og svo fyrir vef Vesturbyggðar í flokknum opinberir vefir. Hann vann síðan líka vef ársins, sem eru aðalverðlaun keppninnar.“

Frá þarfagreiningu að lokaútkomu
Stofan tekur að sér fjölbreytt verkefni, allt frá bókum yfir í merkingar, vefsíður og sýningar. „Við vinnum svolítið þvert á miðla, við lítum svo á að okkar hlutverk sé að leysa ákveðin verkefni fyrir kúnnana okkar, óháð því á hvaða formi það er.“ Meðal þess sem Kolofon leggur áherslu á er sveigjanleiki og heildstæð nálgun. „Við viljum helst vera með í öllu ferlinu, frá þarfagreiningu og að lokaútkomunni. Ef þig vantar til dæmis vefsíðu þar sem við förum í greiningarvinnu fyrirfram um hvað vefsíðan á að gera og hver útkoman á að vera, þá gæti það verið eitthvað fyrir okkur.“

Eitt af þeim verkefnum sem Kolofon hefur unnið nýlega er að hanna merkingarnar á nýjum ökutækjum lögreglunnar. „Allt það ferli verður að miklu leyti til að leysa framleiðslu- og endingarvandamál. Við lögðum til lausn á því vandamáli, sem á sama tíma hafði mikil áhrif á útlitið líka. Við viljum náttúrulega að hlutirnir líti vel út, en þessi praktíski hluti skiptir líka rosalega miklu máli.“

Hörður tekur annað dæmi af veitingastað sem Kolofon vann fyrir nýlega. Þar er skipt um matseðil á tveggja vikna fresti, og því fannst þeim mikilvægt að hönnunin fæli í sér að viðskiptavinurinn gæti uppfært hann sjálfur án þeirra aðstoðar, en á sama tíma haldið útlitinu eins og lagt var upp með. „Það er alveg stór hluti af okkar aðferðafræði hvernig við göngum frá hlutunum, þannig að lausnirnar okkar séu ekki bara fallegar, heldur ekki síður endingargóðar og notendavænar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .