Mikil umræða hefur skapast að undanförnu um uppsafnaða þörf á innviðaframkvæmdum og eru flestir sammála um að innviðir á borð við vegakerfið séu komnir að þolmörkum. Framlög til Vegagerðarinnar hafa dregist mikið saman á undanförnum árum og segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri slæmt að horfa upp á það að ekki sé hægt að við­ halda almennilega þeirri uppbyggingu sem ráðist var í á vegakerfinu á níunda og tíunda áratugnum. Í erindi sem Friðrik Már Baldursson flutti á málstofu um Sundabrautina í sumar kom fram að ný­ fjárfesting og viðhald mannvirkja, ekki síst samgöngumannvirkja, hefði setið á hakanum og áætlað hefði verið að yfir 500 milljarða króna vanti á næstu 10 árum til að svara þörfinni fyrir viðhald og uppbyggingu innviða svo vel megi vera.

Ef marka má umræðuna finna landsmenn áþreifanlega fyrir skorti á framkvæmdum hvað vegakerfið varðar, jafnt á höfuð­ borgarsvæðinu og landsbyggð­ inni. Almenn umferð hefur aukist mikið og og á sama tíma slit á vegum. Þá ýtir aukning ferðamanna einnig undir þörfina en í fyrirlestri Gísla Haukssonar, forstjóra GAMMA Capital Management, um fjárfestingu í innviðum fyrir nokkrum mánuðum kemur m.a. fram að búast var við að 1,5-1,6 milljónir ferðamanna legðu leið sína til Íslands í ár.

Þörfin endurspeglast í slakri afkomu verktaka

Eins og áður hefur verið fjallað um endurspeglast þörf á framkvæmdum í vegagerð gjarnan í bágri stöðu þeirra verktaka sem sérhæfa sig í slíkum verkefnum, en margir þeirra segjast lítt hafa orðið varir við góðæri undanfarinna missera. Verkefnastaðan sé slæm og þær raddir hafa heyrst að Vegagerðin hafi varla boðið út verk að neinu ráði síðan á árunum fyrir hrun. Stjórnvöld hafa nú að einhverju leyti brugðist við og á dögunum var samþykkt á Alþingi fjögurra ára áætlun sem felur í sér að töluverðu fjármagni verði bætt við í málaflokinn. Ýmsir hafa þó stigið fram og gagnrýnt stjórnvöld fyrir að grípa of seint í taumana. Réttara hefði verið að verja fjármagni í framkvæmdir sem þessar á samdráttartímum þegar sárlega vantaði innspýtingu í atvinnulífið. Innspýting frá hinu opinbera á uppgangstímum þegar einkaaðilar hafa fjárfest duglega í framkvæmdum víðs vegar í þjóðfélaginu geti jafnvel reynst þensluhvetjandi umfram það sem æskilegt er.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að ýta á hlekkinn Tölublöð.