Áætla má að heildarvirði fiskeldisfyrirtækja, sem rækta lax til manneldis í sjókvíum, sé í kringum 40 milljarðar króna hið minnsta. Óánægja ríkir með fyrirkomulag gjaldtöku af fiskeldi í sjókvíum af hagsmunaaðilum beggja vegna borðs.

Fjögur fyrirtæki, Arnarlax, Arctic Sea Farm, Fiskeldi Austfjarða og Laxar Fiskeldi, sem stunda laxeldi í sjó eru með rekstrar- og starfsleyfi hér á landi. Þau tvö fyrrnefndu eru á Vestfjörðum en síðari tvö félögin á Austfjörðum. Alls hafa verið gefin út leyfi til framleiðslu 60 þúsund tonna af laxi á ári en sótt hefur verið um leyfi fyrir rúm 56 þúsund tonn til viðbótar.

Því fer þó fjarri að leyfin séu fullnýtt. Arnarlax framleiddi til að mynda 6.700 tonn í fyrra en hafði leyfi til að framleiða 22.000 tonn. Fiskeldi Austfjarða slátraði tæplega 5.300 tonnum og framleiðsla Laxa nam tæpum tveimur tonnum. Fyrsta slátrun Arctic Fish átti sér stað á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Öll fyrirtækin fjögur eru að minnsta kosti að helmingi í eigu norskra fyrirtækja. Ekkert fyrirtækjanna hefur skilað ársreikningi vegna síðasta rekstrarárs en upplýsingar um afkomu þeirra má finna í ársreikningum og árshlutauppgjörum norsku fyrirtækjanna.

Samkvæmt uppgjöri Norway Royal Salmon (NRS), sem á helmingshlut í Arctic Fish, tapaði hið íslenska félag um 36 milljónum norskra króna, andvirði um 500 milljóna íslenskra háð gengi, á síðasta ári. Stefnt var að því að félagið myndi slátra sínum fyrstu fiskum undir lok árs. Ekki varð af því fyrr en í upphafi þessa árs en þá var uppskeran 864 tonn. Áætlað er að fyrirtækið muni slátra 3.400 tonnum af laxi úr sjókvíum í ár. NRS keypti helmingshlutinn árið 2016 fyrir 29 milljónir evra, um 3,9 milljarða króna, þó enn væru tæp þrjú ár þar til slátrun ætti sér stað. Þá hafði félagið leyfi til að framleiða 9.000 tonn en síðan þá hafa 2.000 tonn bæst við. Arctic Fish hefur sótt um leyfi til að framleiða um tvöfalt meira magn.

Um 30% samdráttur varð í uppskeru Arnarlax á síðasta ári en stefnt hafði verið að því að framleiða um 10.000 tonn. Félagið er í meirihlutaeigu Salmar AS en hið norska félag náði meirihluta í íslenska framleiðandanum í upphafi árs. Í fyrra átti það 42% hlut í Arnarlaxi en bætti 12% við sig um miðjan febrúar. Fyrir það voru greiddar 180 milljónir norskra, ríflega 2,5 milljarðar íslenskra, eða rúmar 780 krónur á hlut. Í kjölfarið gerði Salmar yfirtökutilboð í hluti annarra eigenda á genginu 55,78 NOK og eignaðist við það 7,54% hlut í viðbót. Eftir viðskiptin á það 62% hlut í Arnarlaxi. Miðað við viðskiptin er heildarvirði félagsins um 22,6 milljarðar íslenskra króna sem er umtalsvert hærra verð, um 70% hærra, en DCF nálgun við mat á virði þess skilar.

„2018 var mikil áskorun fyrir Arnarlax,“ segir um félagið í ársreikningi Salmar. Það megi meðal annars rekja til mikils vetrarkulda og þess að sjúkdómar hafi herjað á kvíar félagsins á Vestfjörðum. Sér í lagi hafi kvíar á einu svæði orðið illa úti. Hlutur Salmar í tapi ársins nam tæpum 11,7 milljónum NOK sem gefur heildartap upp á rúmar 27 milljónir norskar eða því sem nemur hátt í 400 milljónum íslenskra króna.

Verð bundið við leyfin

Í mars í fyrra keypti Midt-Norsk Havbruk (MNH) hlut í Fiskeldi Austfjarða og átti eftir viðskiptin 62% í félaginu. Félagið var á þeim tíma með leyfi til að framleiða 6.000 tonn en fékk í mars á þessu ári leyfi til aukinnar framleiðslu í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Alls hefur félagið nú heimild til að framleiða 20.800 tonn en leyfin fela í sér að um 40% eldisfisksins verður að vera geldlax. Í ársreikningi MNH kemur fram að tap af hlut félagsins hafi numið um 24,4 milljónum NOK. Fyrir hlutinn í Fiskeldi Austfjarða greiddi MNH 73,5 milljónir NOK eða því sem nemur um milljarð króna. Samningurinn var hins vegar bundinn fyrirvörum um að ef félaginu tækist að auka við leyfi sín, upp í 24 þúsund tonn eða meira til ársins 2028, þá myndi kaupverðið hækka í allt að 294 milljónir norskra, andvirði um 4,2 milljarða íslenskra.

Félagið Måsoval hefur frá 2016 átt 54% hlut í Löxum fiskeldi. Ekki fundust upplýsingar um hvað greitt var fyrir hlutinn og þá hafði blaðið ekki upplýsingar um afkomu ársins 2018.

Líkt og tölur um framleiðslu, samanborið við útgefin leyfi, gefa til kynna er enn nokkuð í að sjókvíaeldi hér á landi sé komið á fullt. Vöxtur hennar undanfarin ár hefur verið mikill og útlit fyrir að hann muni halda áfram. Til merkis um það nam útflutningsverðmæti greinarinnar fyrstu fjóra mánuði þessa árs 8,6 milljörðum króna en það er meira en heildarverðmæti útflutnings allt árið 2015. Gangi spár eftir mun greinin skila rúmum 22 milljörðum í ár en til samanburðar nam útflutningsverðmæti loðnu á síðasta ári tæpum 18 milljörðum. Hér á landi er ekki greitt sérstaklega fyrir framleiðsluleyfin líkt og tíðkast í Noregi. Hafa verið leiddar að því líkur að hin norsku fyrirtæki séu að tryggja sér ódýr leyfi hér á landi, á markaði sem áætlað er að vaxi hvað mest næstu árin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .