Aðalmeðferð í máli Glitnis HoldCo gegn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fór fram fyrir síðustu helgi og er dóms nú að vænta í málinu. Þrætuefni málsins er uppgjör afleiðusamninga frá árunum kringum hrun en málið hefur verið til meðferðar í héraðsdómi allt frá árinu 2012.

Á árunum 2002 til 2008 gerðu Glitnir og OR fjölmarga afleiðusamninga sín á milli en nákvæmur fjöldi samninga er 596. Enn eru óuppgerðir átta slíkir samningar, þrír samningar með framvirk gjaldmiðlaviðskipti og fimm vaxtaskiptasamningar, sem eru þrætuefni málsins. Þegar málið var höfðað í október 2012 var það mat Glitnis að OR stæði í 747 milljóna króna skuld vegna þeirra og er það dómkrafa málsins. Þá er dráttarvaxta krafist af stærstum hluta upphæðarinnar allt frá árinu 2008 og því ljóst að endanleg upphæð hefur hækkað allnokkuð.

OR hefur í málinu krafist sýknu á grundvelli ýmissa málsástæðna. Meðal annars er byggt á því að ógilda eigi samkomulagið á grundvelli ógildingarreglna samningaréttarins þar sem uppgjör Glitnis hafi verið fegruð áður en bankinn féll. Bankinn hafi í raun verið ógjaldfær og því beri ekki að efna samkomulagið samkvæmt efni sínu. Einnig er á því byggt að Glitnir hafi þegar fengið upphæðina greidda á grundvelli dómsáttar sem félagið gerði við endurskoðunarfyrirtækið PWC, þá bæði félagið á Íslandi sem og í Bretlandi. Að endingu er sýknu krafist á grunni aðildarskorts þar sem krafa málsins hafi verið framseld íslenska ríkinu í formi stöðugleikaframlags. Síðustu tvær málsástæðurnar eru nokkuð nýtilkomnar, það er þeirra var ekki getið í greinargerð OR í upphafi málsins, og hefur Glitnir andmælt því að þær komist að í málinu.

Það var skammt stórra högga á milli hjá Ragnari Björgvinssyni, lögmanni Glitnis HoldCo, en viku áður hafði hann tekið til varna gegn riftunarkröfu þrotabús Mainsee Holding ehf. á hendur Glitni. Því máli voru gerð skil í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Aðalmeðferðin nú tók tvo daga en sá fyrri var tileinkaður skýrslutökum yfir matsmönnum. Var þar að hluta um endurtekið efni að ræða vegna mannabreytinga á fjölskipuðum dómarabekknum.

Umfangsmikið en þó einfalt

„Málið er ekki flókið þótt málsskjöl telji þúsundir blaðsíðna. Það varðar átta afleiðusamninga sem OR gerði við Glitni en þeir samningar voru gerðir af aðilum sem voru til þess bærir. Um viðskiptin giltu markaðsskilmálar Glitnis og ekki er ágreiningur um útreikning kröfunnar,“ sagði Ragnar í upphafi málflutningsræðu sinnar.

Séu dómar Hæstaréttar um uppgjör afleiðuviðskipta skoðaðir má sjá að talsvert mikið þarf að koma til svo að ekki sé fallist á gildi slíkra samninga. Í málflutningi lögmanns Glitnis kom meðal annars fram að stjórnendur OR hefðu verið vel upplýstir um atburði á mörkuðum og þau efnahagslegu óveðursský sem höfðu byrjað að hrannast upp mánuðina fyrir fall bankanna. Félagið hafi meðal annars notið aðstoðar sérfræðinga við mat á aðstæðum. Þá hafi OR verið flokkað sem viðurkenndur gagnaðili, í skilningi verðbréfaviðskiptalaganna, og sem slíkur nyti félagið ekki sömu verndar og almennir neytendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .