Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ásakanir verkalýðshreyfingarinnar um hræðsluáróður atvinnurekenda vera ódýran málflutning.

„Menn geta alltaf sagt það. Orð eru ódýr í þessu samhengi. Eitt af því sem er svo auðvelt að segja við svona tölum er að þetta sé einhvers konar hræðsluáróður atvinnurekenda. En þetta er ekki flóknara en það að ef þú tekur vatnið úr fiskabúrinu þá deyja fiskarnir. Þetta eru bara staðreyndir og það þarf ekki að horfa á þessar tölur frá okkur,“ segir Jóhannes. Hann bendir á að könnunin skili sambærilegri niðurstöðu og kannanir SA um væntingar þeirra sem reka fyrirtæki og þá sýni rekstrartölur Hagstofunnar svart á hvítu hvernig fyrirtæki í  ferðaþjónustunni  standi. „Það sjá það allir í hendi sér að þeir sem á annað borð skoða þessar tölur með skynsemi og hlutlægni sjá að þetta er bara staðan. Það er ekkert hægt að fara í kringum það með frösum,“ segir hann.

Fundir framar átökum

Jóhannes vill lítið segja um gang kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins við verkalýðshreyfinguna. Hann vonast þó til að  samningsaðilar  haldi áfram að funda því hver fundur hljóti að færa þá nær samningum. „Það sem við höfum lagt áherslu á er að það sé skynsamlegra að sitja saman við samningaborðið og reyna að ná sameiginlegri sýn á þessar áskoranir og álitamál sem eru  fram undan frekar en að efna til átaka því þau munu engu skila nema tjóni fyrir samfélagið,“ segir Jóhannes.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .