Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hlaut á fimmtudaginn viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Á rúmlega þrjátíu árum hefur Marel breyst úr litlu íslensku sprotafyrirtæki í alþjóðlegt hátæknifyrirtæki. Árni Oddur segir að fyrirtækið leggi að meðaltali 5 til 6% af veltu í rannsóknar- og þróunarstarf á ári hverju, sem sé hæsta hlutfall sem fyrirfinnst í greininni.

Sem dæmi um tækniþróunina og hugvitið í Marel þá fékk hópur starfsmanna það verkefni fyrir skömmu að setja upp verksmiðju í sýndarveruleika fyrir norska fyrirtækið Lerøy , sem var að reisa fullkomnustu laxaverksmiðju Noregs. Starfsmenn með áratuga reynslu hjá Marel voru í þessum hópi sem og ungt fólk, sem kom meðal annars úr tölvuleikjageiranum.

Árni Oddur segir að afrakstur þessarar vinnu sé sá að í stað þess að setja verksmiðju upp í húsnæði Marel til að sannreyna hvort hún virki þá sé nú hægt að gera það í sýndarveruleika. Þetta stytti afhendingartímann auk þess sem uppsetning tækjanna hjá viðskiptavininum taki nú helmingi styttri tíma en áður. Hann segir að enn annar kostur við þetta sé að viðskiptavinurinn, sem komi til með að stjórna verksmiðjunni, geti nú prófað allt í sýndarveruleika áður en verksmiðjan sé sett upp. Þetta sé bylting því hjá stjórnendum verksmiðja fara fyrstu vikurnar eftir uppsetningu gjarnan í að læra á búnaðinn og ýmislegt geti farið úr skorðum á því tímabili, sem geti til dæmis valdið því að verksmiðjan sé ekki keyrð á fullum afköstum fyrstu vikurnar.

Árni Oddur segir að auk alls þessa hafi sýndarveruleikinn hjálpað Marel við að þróa sín tæki, því í tölvu sé til dæmis hægt að toga og teygja stál í sýndarveruleika og breyta ýmsu í ferlinu og þar með losa um ýmsa flöskuhálsa í verksmiðjum viðskiptavina og auka afköst.

Ítarleg viðtal við Árna Odd Þórðarson er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.