Umtalsverð viðskipti voru í dag með hlutabréf VÍS í Kauphöllinni í dag en bréfin lækkuðu um um 2,5% í viðskiptum fyrir 1,6 milljarð króna. Þá voru einnig mikil viðskipti með hluti í Arion banka sem lækkuðu um 0,1% í viðskiptum fyrir 1,1 milljarð króna.

Viðskipti með þess tvö félög voru ríflega tveir þriðju af heildarveltu dagsins á markaði með hlutabréf sem nam fjórum milljörðum króna. Úrvalsvísitalan hækkað um fjórðung úr prósentu og var skráð 2.060 stig þegar lokað var fyrir viðskiptin í dag.

Mest hækkaði Síminn eða um 2,8% í viðskiptum fyrir 430 milljónir króna en félagið kaus nýja stjórn á hluthafafundi í dag. Eimskip hækkaði um 1,1% í viðskiptum fyrir 16 milljónir króna. Þá hækkaði TM um 0,8% í viðskiptum fyrir 5 milljónir.

Mesta lækkuðu áðurnefnd bréf í VÍS eða um 2,8%. Icelandair lækkaði um 1,5% í viðskiptum fyrir 60 milljónir króna. Þá lækkaði Kvika banki um 1,4% í viðskiptum fyrir 85 milljónir króna.

Velta á markaði með skuldabréf nam 5,6 milljörðum króna. Mest viðskipti voru með RIKB25 eða fyrir 1,2 milljarð króna og lækkaði krafan um þrjá punkta.