Hagnaður stóru viðskiptabanka þriggja á síðasta ári var sá lægsti frá endurreisn þeirra eftir fall fjármálakerfisins haustið 2008. Samanlagður hagnaður Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka nam 27,8 milljörðum króna og dróst saman um ríflega fjórðung frá árinu 2018. Þá var samanlagður hagnaður síðasta árs einungis um fjórðungur af því sem hann var árið 2015 sem var metár eftir hrun. Tap vegna eigna í söluferli og neikvæðar virðisbreytingar útlána á síðasta ári lita þó uppgjör bankanna.

Hagnaður Íslandsbanka nam 8,5 milljörðum króna og dróst saman um 20% milli ára. Arðsemi eign fjár var 4,8% og lækkaði um 1,3 prósentustig milli ára en arðsemi bankans hefur lækkað í samfellt sjö ár frá því að hún var 17,2% árið 2012. Verri afkoma bankans á síðasta ári skýrist einkum af því að hrein virðisbreyting útlána var neikvæð um tæplega 3,7 milljarða á síðasta ári en var jákvæð um tæplega 1,6 milljarða árið 2018. Þá var 972 milljóna króna tap af starfsemi Borgunar á síðasta ári en tap dótturfélagsins dróst þó saman um 97 milljónir milli ára.

Annað árið í röð var afkoma Arion banka svo lökust en hagnaður bankans nam 1,1 milljarði króna og dróst saman um 6,7 milljarða á milli ára. Arðsemi eigin fjár var 0,6% og lækkaði um 3,1 prósentustig á milli ára. Tap vegna félaga sem bankinn er með í söluferli lituðu uppgjör bankans fyrir árið 2019 en eftir að hafa fært niður eignir Valitor, TravelCo og United Silicon oftar en einu sinni á árinu nam tap vegna eigna í söluferli tæplega 13 milljörðum króna þegar upp var staðið.

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi Arion nam rúmlega 14 milljörðum á árinu 2019 og jókst um rúmlega 3 milljarða á milli ára. Þá nam hagnaður af áframhaldandi starfsemi 5,2 milljörðum á fjórða ársfjórðungi 2019 og jókst um ríflega 3 milljarða króna. Þess ber þó að geta að 1,1 milljarður af þeirri fjárhæð kemur til af sölu hans á hluta af íbúðarlánasafni sínu auk þess sem tap vegna United Silicon og gjaldþrots Primera árið 2018 var fært með niðurfærslu fjáreigna fyrir það ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .