Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands lækkaði um 3,67% í ríflega 4,5 milljarða viðskiptum dagsins og stendur nú í 2.090,9 stigum en vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi frá því 9. júlí árið 2018 þegar vísitalan lækkaði um 3,72%. Lækkanir dagsins koma til af smituðum áhrifum frá erlendum mörkuðum þar sem auknar áhyggjur af áhrifum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar, COVID-19, á heimshagkerfið hafa valdið töluverðum lækkunum á nær öllum hlutabréfamörkuðum heimsins í dag.

Öll félögin 20 á aðallista Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins og lækkaði heildarmarkaðsvirði þeirra um 42 milljarða króna en það nemur eftir daginn um 1.211,8 milljörðum króna.

Mest lækkun varð á bréfum Icelandair Group eða tæplega 9% í 253 milljóna viðskiptum. Ljóst er að kórónaveiran hefur einna mest áhrif á flugfélög en sem dæmi má nefna að hlutabréf IAG, móðurfélags British Airways og Iberia lækkaði um 9% í viðskiptum dagsins, Lufthansa um 8%, Air France-KLM um 8% auk þess sem bréf Delta og American Airlines hafa það sem af er degi lækkað um 7-8%.

Alls lækkuðu 10 félög um meira en 3% en fyrir utan Icelandair varð mest lækkun á bréfum Eikar sem lækkuðu um 5,1% auk þess sem bréf Eimskips lækkuðu um 4,5% og bréf Marel um 3,1% en markaðsvirði félagsins lækkaði um tæplega 17 milljarða í um 1,1 milljarða viðskiptum dagsins.