Ýmislegt bendir til þess að skuldir ríkissjóðs gætu hækkað nokkuð skarpt innan skamms og er aukinni lántöku vegna faraldursins ekki aðeins um að kenna. Skoðun á reikningsskilum hinna sálugu Íbúðalánasjóðs (ÍLS) og Lánasjóðs íslenskra lánsmanna (LÍN) og þeirra stofnana sem á eftir fylgdu, það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), ÍL-sjóður og Menntasjóður námsmanna (MSN) hefur leitt í ljós að þeir falli að óbreyttu sennilega innan A-hluta ríkisins í stað B-hluta áður.

Í ársbyrjun 2016 tóku gildi lög um opinber fjármál en þau leystu af hólmi lög um fjárreiður ríkisins. Á árum áður hafði framsetning ríkisfjármála verið á reikningsskilalegum grunni, eftir svokölluðum IPSAS-staðli, en eftir lagabreytinguna færðust þau nær því að tengja í frekara mæli saman fjármál hins opinbera við opinberar tölur um stöðu og afkomu ríkissjóðs. Slíkt fer fram eftir svokölluðum GFS-hagskýrslustaðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er varða framsetningu þjóðhagsreikninga. Því til viðbótar er Ísland aðili að evrópska hagskýrslusamstarfinu og nýtir því einnig ESA-2010 hagskýrslustaðalinn við gerð þjóðhagsreikninga.

Samkvæmt lögunum skiptast starfsemi og verkefni ríkisins í þrjá hluta. Til A-hluta teljast verkefni og starfsemi fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Í B-hluta falla fyrirtæki og lánastofnanir undir stjórn ríkisins, rekin á ábyrgð ríkissjóðs. Í C-hluta falla, auk Seðlabanka Íslands, síðan sameignareða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins.

Með reglubundnum hætti hefur Hagstofan tekið til skoðunar hvort rétt sé að endurskoða haggeiraflokkun hins opinbera, það er kanna hvort einhverjar breytingar hafi orðið á starfsemi stofnana og fyrirtækja sem kalla á að þær séu færðar milli A-, B- eða C-hluta. Slík vinna hefur staðið yfir að undanförnu og við hana hefur meðal annars verið leitað til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Við þá vinnu kom í ljós að mögulega gæti verið tilefni til að skoða flokkun ÍLS og LÍN sem B-hluta ríkisstofnanir. Samtímis var kannað hvar skyldi koma HMS, ÍL-sjóði og MSN fyrir.

Gildi fram á við og til baka

Eurostat skilaði áliti sínu hvað LÍN varðar í sumar og um svipað leyti tók reikningsskilaráð ríkisins afstöðu til álitaefnisins. Á það var meðal annars bent að ríkissjóður ábyrgðist skuldir sjóðsins, vaxtakjör sem hann býður væru betri en fjármögnunarkjör hans og að sjálfstæði sjóðsins væri í reynd takmarkað. Niðurstaðan varð sú að LÍN og MSN féllu betur að A-hluta ríkisstofnun. Af þeim væri rétt að endurflokka sjóðinn sem slíkan í bókum ríkisins, jafnt afturvirkt sem framvirkt.

Í áliti Eurostat um ÍLS, sem lítur að flokkun innan þjóðhagsreikninga, er harmsaga sjóðsins tíunduð. Sjóðinum var komið á fót árið 1999 og var hann um skeið stærsti lánveitandi á húsnæðismarkaði. Síðar hófu bankar og lífeyrissjóðir að bjóða betri kjör og neytendur endurfjármögnuðu því eldri lán hjá ÍLS. Staða sjóðsins fór hríðversnandi og þurfti ríkið í upphafi þessa áratugar að leggja honum til 52 milljarða króna. Um mitt síðasta ár námu eignir utan lánasafns 45% af heildareignum og ljóst að við svo yrði ekki búið lengur. Undir lok síðasta árs var ÍLS lagður niður og skuldabréf og húsnæðislán gefin út af sjóðnum fyrir 1. janúar 2013 færð í sérstakan ÍL-sjóð sem heyrir undir fjármálaráðherra. Markmið þess var að draga úr fjárhagslegri áhættu sem af sjóðnum hlýst. Lán veitt eftir sama tímamark, sem og Leigufélagið Bríet ehf. og Húsnæðissjóður, sem samanstendur af lánum veittum árið 2013 og síðar, urðu eftir hjá HMS.

„Í [breyttri flokkun] felst algjör uppstokkun á meðferð sjóðsins innan ríkissjóðs A-hluta. Ársuppgjör sjóðsins myndi sýna núvirtan efnahagsreikning á eigna- og skuldasafninu. Hjá ríkissjóði myndi tilfærsla sjóðsins falla niður en á móti myndi tegundarsundurliðun gjalda og tekna hjá sjóðnum koma inn í rekstrarteikninginn. Efnahagsliðir á eigna- og skuldahlið sjóðsins myndu falla inn í tilsvarandi liði hjá ríkissjóði en í því felst m.a. að langtímakröfur ríkissjóðs á LÍN falla út á móti samsvarandi langtímaskuldum LÍN gagnvart ríkissjóði,“ segir meðal annars í svari reikningsskilaráðs ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það hvernig skuli haga núvirðingu á eignasafni LÍN og MSN í efnahagsreikningi ríkisreiknings ef sjóðirnir enda í A-hluta.

Skuldir ÍL-sjóðs í A-hluta

ÍL-sjóður aftur á móti færðist beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem samkvæmt þjóðhagsreikningastaðli leiðir til þess að hann flokkast til Ahluta ríkisins. Vegna óvissu um það hvernig skuli farið með hinn gamla ÍLS hefur ársreikningi fyrir árið 2019 ekki verið skilað. Samkvæmt starfsþáttayfirliti ÍLS, sem birtist í ársreikningi 2018, má sjá að skuldir hins nýja ÍL-sjóðs námu rúmum 596 milljörðum króna og skuldir Húsnæðisstofnunar 127 milljörðum króna. Miðað við það sem reifað hefur verið hér að framan munu umræddar upphæðir að óbreyttu lenda beint í efnahagsreikningi Ahluta ríkissjóðs.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni hefur yfirfærslan hvað ÍL-sjóð varðar þegar átt sér stað. Úr frétt um afkomu hins opinbera frá miðjum síðasta mánuði kemur meðal annars fram að heildarskuldir hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, í árslok 2019 hafi numið 79,6%, þar af voru skuldir sveitarfélaga um 12%, af vergri landsframleiðslu og að hlutfallið hafi hækkað um 8,2% miðað við árslok 2018. Ástæðan hafi verið tilfærsla á ÍL-sjóði frá Íbúðalánasjóði og til ríkisins. Að sama skapi hafi innlendar lántökur hækkað úr 8,5% í 14,8% af vergri landsframleiðslu sem einnig megi rekja til sömu tilfærslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .