Viðskiptabankarnir þrír segja breytingar á vaxtagjöldum til skoðunar í kjölfar vaxtalækkunar Seðlabankans í síðustu viku en horfa þurfi til fleiri þátta en stýrivaxta að því er Morgunblaðið greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku lækkaði Seðlabankinn vexti um 0,25 prósentustig, niður í 3,25% sem eru lægstu vextir síðan lög um verðbólgumarkmið voru tekin upp.

Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja segir að svigrúm bankanna til vaxtalækkana sé þrengra en ella vegna hárra álaga á bankana. Segir hann jafnvel hægt að lækka íbúðalánavexti um 1 prósentustig með lækkun álaganna, en samanlagt hafa bankarnir greitt um 15 milljarða á ári í sértæka skatta undanfarin ár.

Vísar hann þar til þriggja sérstakra skatta sem teknir voru upp á árunum eftir hrun, það er svonefndur bankaskattur sem nemur 0,376% af heildarskuldum, 5,5% fjársýsluskattur á öll laun hjá fjármálastofnunum og loks viðbótartekjuskattur á banka svo þeir greiða 20% tekjuskatt af hagnaði auk 6% viðbótarskatt af hagnaði umfram 2 milljarða króna.

Við þetta bætist að eiginfjárkröfur bankanna eru mun hærri en í nágrannalöndunum. „Ég held að þessir tvær þættir, skattlagningin og eiginfjárkröfurnar, geri það að verkum að kostnaðarstigið hjá okkur er 1% hærra sem hlutfall heildareigna en í nágrannalöndunum, svo dæmi sé tekið. Ég hugsa að vaxtastigið gæti lækkað um allt að 1% ef sérstöku skattarnir yrðu látnir ganga til baka og eiginfjárhlutföllin væru þau sömu eða svipuð og annars staðar,“ segir Yngvi Örn, sem segir þessa þætti skekkja samkeppnisstöðu gagnvart erlendum bönkum.

„Vaxtalækkun Seðlabankans hefur fyrst og fremst bein áhrif á lán með breytilegum vöxtum. Þetta eru enda skammtímavextir. Ef lánin eru með föstum vöxtum til þriggja eða fimm ára hefur þetta minni áhrif. Svo eru það viðbrögðin á eftirmarkaði með ríkisskuldabréf. Þegar Seðlabankinn lækkaði síðast vexti leiddi það til hækkunar á vöxtum á skuldabréfamarkaðnum af því menn voru búnir að verðleggja inn meiri vaxtalækkun en Seðlabankinn kom með. Ef menn ætla að rífast um keisarans skegg geta menn haft rétt fyrir sér. En í meginatriðum hafa bankarnir fylgt vaxtabreytingum Seðlabankans.“