Meginvextir Evrópska seðlabankans eru nú neikvæðir um hálft prósent og segist bankinn ekki ætla að hækka þá fyrr en verðbólga færist mun nær 2% markmiðum bankans. Wall Street Journal greinir frá.

Stefnt er að því að halda vöxtum í lágmarki til að styðja áfram við evrusvæðið í kjölfar nýrrar COVID-19 bylgju sem ríður nú yfir Evrópu, sem drifinn er áfram af hinu bráðsmitandi Delta afbrigði. Forseti bankans, Christine Lagarde, segir að faraldurinn haldi áfram að kasta skugga á efnahagslega viðspyrnu Evrópu og þá sérstaklega í ferðaþjónustunni.

Ekki er gert ráð fyrir því að bankinn muni hækka vexti fyrr en í fyrsta lagi árið 2024 eða 2025 en það er um áratugi eftir að neikvæðir vextir voru fyrst settir á, í júní 2014.

Gert er ráð fyrir því að hagkerfi evrusvæðisins muni vaxa um 4,5% í ár miðað við 7% í Bandaríkjunum. Verðbólga þar var þó töluvert minni en í Bandaríkjunum eða 1,9% samanborið við 5,4% í Bandaríkjunum. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir því að hagkerfi evrusvæðisins muni ná að jafna sig fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári en Bandaríkin hafa nú þegar náð að rétta úr kútnum með tilliti til ástandsins fyrir faraldur.