Ívar Ingimarsson framkvæmdastjóri gistiheimilanna Birtu og Olgu segir að við flugbann Trumps hafi grundvöllur rekstrarins hrunið og leggur áherslu á að áhrif veirusýkingarinnar séu ekki bara vandamál ferðaþjónustunnar. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa ferðaþjónustufyrirtæki séð gríðarlegar afbókanir á stuttum tíma síðustu daga marsmánaðar og væntingar um metvor að engu orðnar.

„Virðiskeðja ferðaþjónustunnar liggur út um allt samfélagið, þó að vandinn byrji kannski þar. Ég held að Íslendingar séu búnir að átta sig á hversu mikilvægt það er að koma ferðaþjónustunni í gegnum þennan erfiða tíma sem er framundan og ég trúi því að þessar fyrstu aðgerðir muni taka breytingum þegar menn átta sig betur á stöðunni," segir Ívar.

„Þau úrræði sem kannski nýtast best fyrir okkur og hafa mest áhrif til að byrja með er heimildin um hlutastörf og hlutabætur, og ég er ekki að sjá annað en nánast hvert einasta fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi sé að fara að nýta sér það. Þetta fer auðvitað eftir því hve margt starfsfólk og mikinn launakostnað fyrirtæki hafa, og hversu mikið þau skulda, en við erum bara lítið fjölskyldufyrirtæki sem við vinnum sjálf hjá, svo til skamms tíma þá klárum við okkur.

En það segir sig bara sjálft, verandi eyja sem tekur við nánast öllum sínum gestum í gegnum þessa einu gátt okkar á Keflavíkurflugvelli, að þegar það koma engir gestir þá koma engar tekjur inn, og það verður hrikalega erfitt, sérstaklega ef ástandið ílengist."

Bókanir eilítið niður framan af

Þó að síðasta ár hafi verið nokkuð erfitt í ferðaþjónustunni eftir fall Wow air segir Ívar að bókanir hafi bara verið einungis eilítið niður frá fyrra ári í janúar og febrúar og mars hafi litið ágætlega út, en afbókanir hafi byrjað að hrynja inn í kringum miðjan marsmánuð.

„Frá og með tilkynningu Trumps um flugbannið þá hrundi þetta allt, og við fórum að taka við tugum afbókana á hverjum einasta degi. Það stefndi í alveg ágætis mars og apríl sem er gott sem allt farið. Við vitum að næstu sex til átta vikur þá verður nánast ekkert að gera. Þær bókanir sem voru núna í apríl og maí hafa verið að þurrkast út og það sem er ekki farið enn dettur líklegast út því fólk getur afbókað frítt sjö daga fyrir komu," segir Ívar.

„Einhverjir aðilar hafa verið að taka greiðslur fyrirfram, en þeir geta lent í vandræðum núna þegar svona „force majore" aðstaða kemur upp, því þá vakna alls konar spurningar. Stóru bókunarvélarnar og ferðaskrifstofur hafa verið að endurgreiða bókanir sem ferðaþjónustuaðilar hafa þegar tekið greiðslur fyrir, svo nú sjá sum þeirra ekki einungis fram á tekjuhrun heldur útflæði fjármuna sem þau voru búin að gera ráð fyrir í rekstrinum því þau þurfa að endurgreiða þá.

Sum ferðaþjónustufyrirtæki hafa jafnvel tekið við greiðslum inn í sumarið sem þau gætu svo lent í vandræðum með núna að borga til baka. Hjá okkur eru skilmálarnir ein vika og því engin ástæða til að afbóka fyrr en fólk veit hvernig staðan verður, en ef það verður áfram alger þurrð næstu sex til átta vikurnar og ástandið breytist ekkert má alveg reikna með að þetta færist inn í sumarið. Ég held við verðum að vera alveg raunsæ með það að þetta getur orðið ansi lélegt ferðasumar."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .