Á tíunda tímanum í dag, eða klukkan 11:00 á breskum tíma, verður loks skorið úr um það hvort það verði Boris Johnson eða Jeremy Hunt sem verður fyrir valinu í póstkostningu Íhaldsmanna um leiðtogasætið í flokknum. Nýr forsætisráðherrann mun þurfa að boða til kosninga fyrir maí 2022, sem og leysa úr því hvernig loforð um úrgöngu úr ESB verði uppfyllt gagnvart þjóðinni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um báru þeir Boris og Johnson sigurorð af 10 frambjóðendum sem þingmenn Íhaldsflokksins gátu valið á milli í nokkrum umferðum, en Boris hefur frá upphafi verið með mesta stuðninginn í skoðanakönnunum . Hann hefur heitið því að sækjast ekki eftir því að framlengja veru Bretlands í Evrópusambandinu sem lýkur 31. október næstkomandi.

Er talið að niðurstaðan í dag muni hafa töluverð áhrif á hvernig markaðir bregðist við, og segir MarketWatch að óvæntur sigur Jeremy Hunt núverandi utanríkisráðherra geti leitt til hækkunar pundsins sem og hlutabréfa í landinu.

Markaðir gera ráð fyrir sigri Boris

Hins vegar virðist markaðir þegar hafa gert ráð fyrir sigri Boris Johnson fyrrum utanríkisráðherra, þar sem pundið hefur farið lækkandi en FTSE 100 vísitalan, sem veltur mikið á utanríkisviðskiptum, á móti farið hækkandi á síðustu vikum.

Hvort sem það verður Boris sem fór fyrir kosningabaráttu þeirra sem vildu yfirgefa Evrópusambandið fyrir rúmlega þremur árum síðan, eða Hunt, sem var þá, þó hann segist nú hafa skipt um skoðun, á móti úrgöngu úr ESB, er ljóst að viðkomandi mun leita ásjár Elísabetar Englandsdrottningar um að mynda nýja ríkisstjórn.

Nýr forsætisráðherra verði síðan kominn í embættið strax á morgun miðvikudag og flytji sína fyrstu stefnuræðu þá þegar um kvöldið. Richard Stone framkvæmdastjóri Share Centre segir að þó fjárfestar virðist með eilitlum meirihluta vilja sjá Hunt hreppa hnossið muni hlutabréfaverð geta hækkað til lengri tíma litið hvor sem yrði fyrir valinu.

„Báðir frambjóðendur hafa gefið í skyn að þeir muni rýmka fjármálastefnu ríkisins eilítið og auka ríkisútgjöld til hinna ýmsu loforða sem þeir hafa gefið, sem ætti til lengri tíma vera gott fyrir fyrirtæki og afkomu þeirra, og þar af leiðandi fyrir hlutabréfaverð. Það er að því gefnu að Brexit verði klárað á ásættanlegan hátt svo þeir geti gert áætlanir til lengri tíma.“

Jafnframt geti afstaða þeirra til deilunnar við Íran sem nýlega tók haldi breskt olíuflutningaskip haft áhrif á olíuverð og þar með afkomu olíufyrirtækja. Auk þess mun nýr forsætisráðherra kjósa komandi bankastjóra Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, en skipunartími Mark Carney í embættinu rennur út í janúar næstkomandi.