Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna sem eru á þingi ætla að hittast og ræða samstarfsgrundvöll eftir kosningarnar næstkomandi laugardag strax í fyrramálið.

Þetta tilkynntu fulltrúarnir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar, Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og Oddný Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar með nánast samhljóða skilaboðum á facebook veggjum sínum.

Verður fundurinn haldinn á Lækjarbrekku klukkan 11:00 í fyrramálið og munu fulltrúar flokkanna þar fara yfir sín forgangsmál og ræða samstarfsfleti í framhaldi kosninga.