Þýska flugfélagið Lufthansa er að auka framboð af innanlandsflugferðum sem sniðnar eru að viðskiptaferðalöngum í þessum mánuði og þeim næsta. Frá þessu greinir Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, í samtali við Reuters.

„Við erum að sjá það skýrt núna að viðskiptaferðalangarnir eru snúnir aftur,“ er haft eftir forstjóranum.

Í þessum mánuði hefur áætlanaflug milli helstu viðskiptaborga Þýskalands verið aukið um 30% og verður ferðunum einnig fjölgað um 15% í október.

Mun Lufthansa m.a. endurvekja flug á klukkustundarfresti að morgni og á kvöldin milli Frankfurt og Hamborgar, og Frankfurt og Berlínar. Þessi flug nutu mikilla vinsælda meðal viðskiptafarþega áður en Covid-faraldurinn skall á.

Spohr segir flugáætlun Lufthansa í Evrópu nú vera 60% af hefðbundinni áætlun sem var í gildi fyrir faraldurinn.