Viðskiptafræði heldur áfram að vera vinsælasta greinin í Háskóla Íslands sem og í Háskólanum á Akureyri og á Bifröst. Í Háskólanum í Reykjavík er tölvunarfræði hinsvegar vinsælasta greinin en viðskiptafræðin fylgir þar á eftir.  Þetta kemur fram á vef ruv.is . Umsóknum um nám fjölgaði í flestum háskólum landsins fyrir utan Háskóla Íslands.

Umsóknum um nám fjölgaði í Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst en fækkaði hinsvegar örlítið í Háskóla Íslands. Umsóknum um nám við Háskólann í Reykjavík fjölgaði um 10% frá árinu í fyrra og fjölgaði umsóknum mest í grunnnámi í heilbrigðisverkfræði eða yfir 70%.

Umsóknum um nám við Háskólann á Akureyri fjölgaði um 38% en þar vegur þyngst ný grein í lögreglufræði sem kennd verður við skólann. Að henni frátaldri var aukningin 18%. Nemendum fjölgað einnig mikið í meistaranámi Háskólans á Bifröst eða um 50% en þar er einnig boðið upp á nýja námsgrein í viðskiptalögfræði. Flestir sóttu um nám í Háskóla Íslands, eða 7.300 manns, en umsóknum hefur fækkað um 300 síðan í fyrra.