Hlutabréf féllu í verði við opnun markaði í Bandaríkjunum og í frétt Financial Times er lækkunin rakin til aukinnar spennu í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína. Svo virðist sem margir fjárfestar hafi í ljósi aukinnar óvissu ákveðið að leita í skjól ríkisskuldabréfa sem hækkuðu umtalsvert í morgun og hafa ekki verið dýrari á þessu ári.

Hlutbréf tæknifyrirtækja lækkuðu hlutfallslega mest í morgun. Ákvörðun ríkisstjórnar Trump um að setja kínverska tæknirisann Huawei á bannlista hefur valdið mikilli óvissu um fjölmörg bandarísk tæknifyrirtæki þar sem ekki liggi fyrir hvaða félög verði verst fyrir barðinu á banninu né hve umfangsmikil viðskiptin við Huawei hafa verið.

S&P 500 vísitalan lækkaði um 1,2% við opnun markaða, Nasdaq og Dow Jones vísitölurnar lækkuðu báðar um 1,4%. Almennt hafa hlutabréf fallið um 4,5% það sem af er maímánuði, en það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í desember 2018.

Á sama tíma hækkaði verð ríkisskuldabréfa umtalsvert og hefur ávöxtunarkrafa bréfanna ekki verið lægri á þessu ári. Gengi dollarans styrktist sömuleiðis og hefur dollarinn ekki verið jafn dýr í tvö ár.