Í desember síðastliðnum var 85 kaupsamningum og afsölum um atvinnuhúsnæði þinglýst samkvæmt tölum Þjóðskrár, sem er 35% fækkun milli ára. Aldrei áður hafa þeir verið svo fáir í desembermánuði í tölum Þjóðskrár, sem ná aftur til ársins 2006.

Sé horft til ársins 2018 í heild voru viðskiptin 1.185 talsins. Sú tala lækkaði um 19% milli ára, og hefur ekki verið lægri síðan 2011. Hvorug talan hefur lækkað jafn mikið milli ára frá 2008.

Tölurnar eru þó um margt ófullkomnar. Veigamesta skekkjan er líklegast sú, að einn samningur getur hljóðað upp á allt frá einni lítilli eign upp í mjög stór eignasöfn, en telst ávallt sem ein viðskipti. Að auki eru viðskipti með eignarhaldsfélög sem eiga fasteignir ekki talin með, jafnvel þótt þeirra eini tilgangur sé utanumhald og rekstur þeirra. Tölurnar ná því illa utan um umfangsmikil viðskipti.

Þá kann í einhverjum tilfellum að vera um tilfærslur milli tengdra aðila að ræða, þótt slíkir gerningar hjá stóru skráðu fasteignafélögunum fari almennt ekki fram á þann hátt að þeir teljist með.

Þrátt fyrir að taka þurfi tölum Þjóðskrár með fyrirvara geta þær gefið vísbendingu um þróun á markaði með atvinnuhúsnæði, og í raun eru þær, þrátt fyrir þá ágalla sem að ofan eru tíundaðir, einfaldlega bestu gögn sem í boði eru. Staðreyndin er einfaldlega sú að opinberum upplýsingum um markaðinn með atvinnuhúsnæði er verulega ábótavant.

Enginn samdráttur í krónum talið
Auk fjölda samninga gefur þjóðskrá út heildarfasteignamat þeirra eigna sem um ræðir. Heildarfasteignamat þeirra eigna sem um hendur skiptu samkvæmt tölum Þjóðskrár á árinu 2018 nam 75,5 milljörðum króna, sem er, ólíkt fjöldanum, ekki sérstaklega lágt í sögulegu samhengi.

Á verðlagi dagsins í dag námu viðskiptin 77 milljörðum árið 2018. Eins og sjá má á grafinu hér til hægri er það á svipuðu róli og undanfarin ár. Veltan var hæst frá upphafi á toppi góðærisins 2007, og merkjanlega undir meðaltali á eftirhrunsárunum, en frá 2011 hefur hún verið nokkuð stöðug, ef frá er talið árið 2013.

Samanlagt núvirt fasteignamat fyrir desembermánuð hvers árs er heldur sveiflukennd stærð vegna stórra einstakra viðskipta og fárra viðskipta almennt í hverjum mánuði. Sem dæmi keypti fasteignafélagið Reginn Klasa fasteignir í desember 2013 fyrir 8,2 milljarða króna, en veltan í þeim mánuði var 18 milljarðar, yfir tvöfalt meðaltalið, sem er 8,2 milljarðar. Veltan í desember 2018 nam rúmum 6 milljörðum og féll um 18% milli ára.

Nánar má lesa um málið í Fasteignamarkaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .