Verulegur viðsnúningur hefur orðið á rekstri umönnunar- og hjúkrunarheimilisins Eir í Grafarvogi frá því að stofnunin lenti í alvarlegum rekstrarvanda árið 2012. Samstæða Eirar skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu á síðasta ári í fyrsta skipti um nokkurra ára skeið og styrkti eiginfjárstöðu sína verulega.

„Stóru fréttirnar eru þær að Eir er komið út úr mjög erfiðri stöðu,“ segir Sigurður Rúnar Sigurjónsson, forstjóri Eirar, í samtali við Viðskiptablaðið. „Viðsnúningurinn frá 2012 í rekstri er verulegur. Við erum komin af þessu hættustigi en jafnframt meðvituð um að hlutirnir geta breyst hratt. Endurreisn Eirar er á áætlun og rekstur samstæðunnar er í jafnvægi.“

Eir er eitt stærsta hjúkrunarheimili landsins, með samtals 185 rými og 211 öryggisíbúðir í rekstri. Eir er sjálfseignarstofnun en stofnaðilar eru meðal annars Reykjavíkurborg, Seltjarnarnes, ýmis stéttarfélög og lífeyrissjóðir.

Samkvæmt samstæðureikningi Eirar fyrir árið 2016, sem geymir rekstrarsjóð og húsrekstrarsjóð, nam tekjuafgangur stofnunarinnar 17,1 milljón króna borið saman við 352,2 milljóna króna tap árið áður, ef litið er til endurgerðs ársreiknings fyrir árið 2015. Eigið fé Eirar var jákvætt í árslok um 1,5 milljarða og eiginfjárhlutfall 14,6%, borið saman við tæplega 256 milljónir í eigið fé og 2,2% eiginfjárhlutfall.

Þegar allt fór fjandans til

Í september 2012 lét Sigurður Rúnar, sem var þá nýtekinn við starfi framkvæmdastjóra Eirar, stöðva allar greiðslur frá stofnuninni. Eir gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Í lok ársins skuldaði Eir 8,2 milljarða króna og var eigið fé hjúkrunarheimilisins neikvætt um rúmlega 880 milljónir. Ári síðar var svo komið að eigið fé Eirar var neikvætt um 1,3 milljarða og eiginfjárhlutfall neikvætt um 17,4%. Eir var statt í alvarlegum rekstrarvanda.

Vandinn var í grófum dráttum tilkominn vegna óskynsamlegra byggingaframkvæmda eftir hrun. Þegar bankarnir hrundu haustið 2008 höfðu stjórnendur Eirar tekið ákvörðun um að hefja byggingu á 111 nýjum öryggisíbúðum við Fróðengi í Grafarvogi í rekstri húsrekstrarsjóðs Eirar. Á tímum þegar verið var að stöðva byggingaframkvæmdir víða um land tóku stjórnendur Eirar þá ákvörðun að halda áfram með uppbyggingu öryggisíbúðanna.

Framkvæmdirnar við Fróðengi voru fjármagnaðar með lánsfé frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum gegn veði í fasteignunum, auk peninga íbúðarétthafa. Það voru innborganir eldri borgara sem höfðu keypt búseturétt í öryggisíbúðum í eigu Eirar til lífstíðar, en ævisparnaður margra íbúðarétthafa lá í búseturéttinum. Þessar innborganir eru skuldbindingar Eirar, þar sem upphæðin erfist til afkomenda íbúðarétthafans meðal annars við andlát hans. Engin veð voru þó fyrir þessum inneignum, sem þýddi að ef Eir færi í þrot myndu þær glatast.

Við hrunið varð hins vegar mikill samdráttur á fasteignamarkaði. Eftirspurn dróst saman og eldri borgarar sem höfðu áhuga á öryggisíbúðum Eirar áttu erfitt með að selja eignir sínar. Þar af leiðandi gekk illa að koma íbúðunum í leigu og var nýting á íbúðunum mjög slök. Á sama tíma skuldaði Eir 6 milljarða til lánardrottna og 2 milljarða til íbúðarétthafa, en árið 2012 var skuldaþol stofnunarinnar um 4,2 milljarðar. Þess má geta að öryggisíbúðirnar og hjúkrunarheimilið voru rekin á sömu kennitölunni. Til að bæta gráu ofan á svart jukust skuldbindingar Eirar vegna innborgana íbúðarétthafa í verðbólgunni eftir hrun, þar sem þær voru verðtryggðar. Viðskiptamódelið var ekki að ganga upp og því voru greiðslur stöðvaðar.

Árið 2014 voru nauðasamningar við kröfuhafa Eirar samþykktir og var í kjölfarið ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu. Veðkröfuhafar samþykktu að lengja í lánum til að lækka greiðslubyrði húsrekstrarsjóðs Eirar og var samþykkt að íbúðarétthafar myndu framvegis fá íbúðaréttargreiðslur sínar endurgreiddar með skuldabréfi með gjalddaga árið 2044 þegar íbúðum er skilað sem áður var staðgreitt. Í kjölfar nauðasamninga var stofnað sér félag um rekstur íbúða Eirar og tók Eir – öryggisíbúðir ehf. yfir allan rekstur íbúða í eigu Eirar hjúkrunarheimilis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .