„Samkvæmt tölum Hagstofunnar fækkaði launþegum hér á landi um rúmlega 1% milli september 2018 og 2019. Eins og vænta má eru breytingarnar mismunandi eftir atvinnugreinum. Mest var hlutfallsleg fækkun í greinum tengdum flugi, en einnig fækkaði töluvert í mannaflsfrekum greinum eins og flutningum og geymslu, mannvirkjagerð og veitingarekstri.“

Þannig skrifar Hagfræðideild Landsbankans í Hagsjá sem birt var á vef bankans í morgun og fjallar um þróun á vinnumarkaði og þannig viðsnúning sem verið hefur á markaðinum núna í ár. Deildin sýnir breytingar í fjölda launþega síðustu ár fyrir nokkrar valdar greinar sem hafa verið mikið í umræðunni. „Litið verður á allan markaðinn: viðskiptahagkerfið, íbúðabyggingar, fjármála- og tryggingastarfsemi, fræðslu og opinbera þjónustu og að lokum einkennandi greinar ferðaþjónustu.“

Segir deildin að þegar greinarnar séu skoðaðar saman sjáist greinilega að mestar sviptingar hafi verið í íbúðabyggingum og ferðaþjónustu á þessu tímabili, sem komi ekki á óvart. Þróunin í hinum greinunum hafi verið öllu jafnari.

Þróun á vinnumarkaði
Þróun á vinnumarkaði

„Launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu tók að fækka frá fyrra ári strax í febrúar 2019 eftir að dregið hafði stöðugt úr fjölgun í greininni frá því í upphafi ársins 2017. Nú í september voru u.þ.b. 2.100 færri launþegar í þessum greinum en var í janúar, sem er um 8% fækkun.

Launafólki við íbúðabyggingar fór fyrst að fækka í ágúst, um 1,4% og fækkaði svo aftur um 5,6% nú í september,“ segir í Hagsjá Landsbankans en í niðurlagi umfjöllunarinnar segir:

„Þessi stutta yfirferð sýnir íslenskan vinnumarkað í hnotskurn. Einstakar greinar geta tekið mikil stökk á stundum hvað vinnuaflsnotkun varðar, bæði upp á við og niður á við. Það kemur ekki á óvart að þróunin hefur verið nokkur niður á við á síðasta ári og rímar 3,9% fækkun launþega í viðskiptahagkerfinu ágætlega við þróunina í hagkerfinu á þessu ári.“