Starfsmaður bifreiðaþvotta- og bónstöðvar á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda síns eftir að hafa rifbeinsbrotnað í gamnislag við yfirmann sinn.

Þeir voru ágætir félagar og sumarið 2020 ákvað starfsmaðurinn að knúsa yfirmann sinn. Sá sagðist í gríni ætla að taka starfsmanninn niður en því var svarað með „þú getur það ekki“. Þegar fangbrögðin héldu áfram heyrðu þeir smell í brjóstkassa starfsmannsins og reyndist hann hafa rifbeinsbrotnað.

Maðurinn krafðist bóta úr tryggingu sinni þar sem um slys á vinnutíma væri að ræða og vísaði til dóms Hæstaréttar í svokölluðu vinnuskólamáli sem fordæmis. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafnaði aftur á móti kröfu mannsins enda hefði umrædd glíma eða gamnislagur ekki verið í neinum tengslum við starf hans. Háttsemi yfirmannsins hefði verið svo fjarri starfsskyldum hans að ábyrgð yrði ekki felld á vinnuveitandann og þar með tryggingafélagið.