Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði nýverið frá dómi kröfu rekstraraðila Café Roma um að þeim væri heimilt að vera án sóttvarnagrímu í Kringlunni. Taldi dómurinn að einstaklingarnir hefðu ekki lögvarða hagsmuni af úrslausn um kröfu sína.

Umrætt dómsmál var höfðað í apríl á þessu ári en um það bil voru aðstæður í samfélaginu talsvert aðrar en þær eru nú. Varnaraðilar málsins voru Rekstrarfélag Kringlunnar og Reitir – verslun ehf. en þau höfðu sett reglur um umgengni í Kringlunni með hliðsjón af aðgerðum til að sporna við farsóttinni.

Eigendur Café Roma höfðu fengið það uppáskrifað frá lækni að sökum heilsufarástæðna ætti að undanþiggja þau grímuskyldu. Frá inngangi Kringlunnar að kaffihúsinu er um 70 metra gangur og kröfðust eigendur húsnæðisins þess að gríma yrði brúkuð á þeirri leið. Inn á þeirra sérafnotareit væri þeim aftur á móti heimilt að vera grímulaus. Töldu stefnendur að með þessu væri verið að leggja rekstrargrundvöll staðarins í rúst enda gætu þeir ekki komist leiðar sinnar að honum þar sem þau gætu ekki gengið um með grímur.

Dómkrafa málsins fól í sér viðurkenningarkröfu á því að rekstraraðilum kaffihússins væri ekki skylt að bera grímuna inni í Kringlunni. Stefndu kröfðust meðal annars frávísunar á þeim grunni að krafan fæli í sér lögspurningu og að þeim væri heimilt, sem eigendum og rekstraraðilum hússins, að setja reglur um umgengni í sameiginlegu rými hússins. Enn fremur hefði grímuskylda verið lögð af í Kringlunni í maí og því væru forsendur kröfugerðarinnar brostnar.

Grímuskyldu ekki aflétt til að losna við dómsmálið

„Stefnendur halda því fram að þau hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína og vísa um það einkum til þess að þau hafi orðið fyrir tjóni og þurfi af þeim sökum að fá viðurkenningu á því að háttsemi stefndu gagnvart þeim hafi verið ólögmæt. Stefnendur gera hvorki grein fyrir meintu tjóni sínu né haga kröfugerð sinni á þann veg að bótaréttur fyrir tjón geti komið til úrlausnar í málinu. Þá er ekki gerð krafa í málinu um viðurkenningu á ólögmæti háttsemi stefndu gagnvart stefnendum,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Í úrskurðinum segir enn fremur að óumdeilt væri að nú væri fólkinu heimilt að ganga um Kringluna án grímu og því væri engin þörf á að krefjast úrlausnar dómstóla um grímuleysi. Dómurinn sagði enn fremur að engin rök hefðu verið færð fyrir þeirri fullyrðingu rekstraraðilanna að Kringlan hefði aflétt grímuskyldu til að sleppa billega frá málssókninni.

Þar sem umrætt ástand var ekki lengur fyrir hendi taldist fólkið ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína. Hljóðaði úrskurðurinn því upp á frávísun frá dómi og að stefnendum yrði gert að greiða 300 þúsund krónur í málskostnað.