Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, hefur lagt fram kröfur sínar til samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands. Í þeim er meðal annars farið fram á að miðað við fullt starf verði lágmarkslaun 375 þúsund krónur, en jafnframt að 80% vaktavinna teljist full vinna.

Félagið fer fram á að samið verði um krónutöluhækkanir en á sama tíma vill félagið að starfsmenntun og ábyrgð í starfi verði metin til hærri launa. Jafnframt vill félagið að laun ungmenna verði miðuð við 18 ár en ekki 20 ár og styttingu vinnuvikunnar.

Loks vísar félagið í það sem þeir kalla skattbyrði og segja hana hafa aukist mest hjá lágtekjufólki. Því segir félagið að eðlilegt sé að verkalýðshreyfingin krefjist skattkerfisbreytinga, til að mynda fjölgun skattþrepa eða sérstakrar hækkunar persónuafsláttar hjá þeim sem eru á lágmarkslaunum.

Loks vill félagið að verkalýðshreyfingin tryggi öryrkjum og öldruðum sambærilegar hækkanir og verði á almenna vinnumarkaðnum.