Landsvirkjun hefur farið formlega fram á það við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að trúnaði verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna. Með því verði hægt að ræða efni hans opinberlega. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgunni í morgun.

„Við teljum æskilegt og í anda gagnsæis að það væri upplýst meira um samninginn og þess vegna skrifuðum við bréf til Rio Tinto í síðustu viku þar sem við höfum óskað formlega eftir því við fyrirtækið að trúnaði sé aflétt af samningnum,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í þættinum.

Nýverið tilkynnti Rio Tinto að álverið væri keyrt á 85% afköstum þessa dagana. Verið væri að velta við hverjum steini í rekstrinum til að reyna að koma honum á réttan kjöl. Í endurskoðunarvinnunni væri meðal annars til skoðunar að skella álverinu í lás.

Hörður sagði mikilvægt fyrir samfélagið að trúnaði sé aflétt. Í honum væru meðal annars ákvæði um endurskoðun sem eiga að tryggja samkeppnishæfni verksmiðjunnar og væri til mikils gagns fyrir alla að trúnaði yrði aflétt af þessum samningi þannig að aðilar gætu rætt um hann opinberlega.